Birna Jóna með tæplega 47 metra kast á NM í frjálsum
Birna Jóna Sverrisdóttir, frjálsíþróttakona frá Egilsstöðum, kastaði tæpa 47 metra á Norðurlandamóti U-20 ára sem haldið var í Kaupmannahöfn um síðustu helgi.Birna Jóna náði kastinu í fjórðu umferð en það var 46,92 metrar. Hún kastaði 45,68 metra í fyrstu umferð og 45,95 í þeirri þriðju. Önnur köst hennar voru ógild.
Birna Jóna varð í áttunda sæti af átta keppendum. Á það ber þó að líta að hún var annar tveggja keppenda fædd árið 2007 en aðrar voru fæddar 2005 og 6. Sú sem vann var á elstra árinu og kastaði 60,18 metra.
Birna Jóna kastaði 4 kg sleggju á mótinu en hún kastar vanalega léttari sleggju, eða 3 kg. Hún er þó ekki óvön 4 kg sleggjunni og kastaði henni 49,08 metra á móti í lok júní. Slíkt kast hefði hækkað hana um tvö sæti.
Birna Jóna keppti með UÍA/Hetti þar til um síðustu áramót að hún skipti yfir í ÍR eftir að hafa flutt suður til að geta einbeitt sér betur að íþróttunum. Tíu íslenskir keppendur tóku þátt í mótinu.
Mynd: FRÍ/Hlín