Birna Jóna nokkuð frá sínu besta

Birna Jóna Sverrisdóttir, frjálsíþróttakona frá Egilsstöðum, var nokkuð frá sínu besta í sleggjukastkeppni Ólympíuhátíðar æskunnar sem haldin er í Slóvakíu.

Birna Jóna keppti í gær í sleggjukasti með 15-16 ára stúlkna með 3 kg sleggju. Hún kastaði 47,22 metra í fyrstu tilraun og 40,27 í annarri en gerði ógilt í þriðju tilraun.

Birna Jóna komst þar með ekki í úrslit en til þess hefði hún þurft að kasta yfir 55 metra. Átta efstu eftir fyrstu þrjú köstin fóru þangað. Besti árangur Birnu til þessa er 51,56 metrar.

Birna Jóna varð í 13. sæti og síðust þeirra sem gerðu gilt. Hún er hins vegar á yngra árinu, fædd 2007. Þrjár jafnöldrur hennar kepptu, sú efsta þeirra varð sjöunda en hinar urðu í 9. og 11. sæti. Hinir keppendurnir voru fæddir 2006.

Meðal þeirra var sigurvegarinn, Patricia Kamga frá Svíþjóð. Hún sigraði með yfirburðum, kastaði 65,92 metra. Það kast kom þó ekki fyrr en í sjöttu og síðustu tilraun og var það bæting um tæpa átta metra frá hennar eina gilda kasti í keppninni til þessa.

Birna Jóna er einn fjögurra keppenda Íslands í frjálsíþróttum á mótinu og ávann sér þátttökurétt með góðum árangri síðustu mánuði. Mótinu lýkur á morgun.

Mynd: Frjálsíþróttasamband Íslands

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.