Blak: Afturelding heim með fullt hús stiga

Lið Aftureldingar fóru heim með fullt hús stiga eftir heimsókn til Norðfjarðar um síðustu helgi. Þrettán ára leikmaður spilaði sinn fyrsta meistaraflokks leik með kvennaliðinu.

Miklar sveiflur voru í fyrri leik kvennaliðanna. Miðað við að Mosfellsbæjarliðið hélt Þrótti undir tíu stigum í bæði fyrstu og þriðju hrinu, sem fóru annars vegar 8-25, hins vegar 9-25, hefði mátt ætla að yfirburðirnir hefðu verið algjörir.

Þróttur vann hins vegar aðra hrinu 25-18 en tapaði þeirri fjórðu 15-25 og leiknum þar með 1-3.

Seinni leikinn vann Afturelding 0-3 en hrinurnar voru að meðaltali jafnari, 20-25, 20-25 og 12-25. Paula Miguel og Heiða Elísabet Gunnarsdóttir voru stigahæstar í Norðfjarðarliðinu í báðum leikjum.

Miklar fjarvistir voru vegna Covid-veikina, hvort lið hafði aðeins níu leikmenn tiltæka í leikina. Þrótt vantaði sinn næst stigahæsta leikmann, Ester Rún Jónsdóttur og þrír af fjórum miðjumönnum Aftureldingar voru frá.

Á móti fengu yngri leikmenn tæknifæri. Helena Kristjánsdóttir spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Þrótt en hún verður 14 ára síðar á þessu ári.

Með sigrinum komst Afturelding upp í efsta sæti deildarinnar en hún og KA hafa yfirburði í deildinni. Þróttur er í þriðja sæti með 19 stig úr 13 leikjum, stigi meira en HK og Álftanes sem leikið hafa jafn marga leiki.

Karlaleikirnir voru öllu jafnari þótt Afturelding færi þar líka heim með öll stigin. Mosfellsbæjarliðið vann fyrri leikinn 1-3 eða 22-25, 21-25, 25-20 og 21-25 í hrinum. Bæði lið sýndu á köflum glæsilegar hávarnir.

Seinni leikinn vann Afturelding svo 0-3 eða 23-25, 21-25 og 19-25 í hrinum. Miguel Angel var stigahæstur í báðum leikjum með annars vegar 19, hins vegar 14 stig.

Þróttur er í sjötta sæti deildarinnar með 19 stig úr 16 leikjum og hefur með úrslitunum heldur dregist aftur úr í baráttunni um fjórða sætið. Afturelding er í því þriðja.

Alba Hernandez Arades, uppspilari Þróttar, í baráttu um boltann við Astrid Ericsson og Maríu Rún Karlsdóttur. Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.