Blak: Bæði lið unnu HK
Bæði karla og kvennalið Þróttar unnu um helgina HK í úrvalsdeildunum í blaki. Leikið var í Neskaupstað. Innbyrðis voru miklar sveiflur í leikjunum.Karlaliðið lenti í oddahrinu. Þrátt fyrir að það gefi vísbendingar um frekar jafnan og spennandi leik spiluðust hrinurnar ekki þannig. Liðin skiptust á að vinna, HK fyrst 16-25, Þróttur svo 25-20, næst HK aftur 16-25, síðan Þróttur 25-19 og loks 15-9 í oddahrinunni.
Sigurlið hverrar hrinu hafði undirtökin nánast frá byrjun hennar. Hrinurnar voru sjaldan jafnar, hvað þá liðin væru að skiptast á forustunni, líkt og oft gerist í jöfnum leikjum.
Miguel Angel Ramos Melero og Ramses Ballesteros voru stigahæstir hjá Þrótti með 15 stig hvor. Með sigrinum fór liðið upp um tvö sæti í deildinni, það fjórða. Það spilar næst gegn Hamri heima.
Hrinurnar í kvennaleiknum voru ögn jafnari. HK komst í 9-11 í þeirri fyrstu en Þróttur skoraði þá fjögur stig í röð og komst tveimur stigum yfir. Liðið bætti síðan í forskotið og vann 25-23 þótt HK gerði atlögu í lokin. Kópavogsliðið svaraði með yfirburðum í annarri hrinu og vann hana 13-25.
Þróttur var kominn í þægilega stöðu, 21-12 í annarri hrinu þegar gestirnir skoruðu átta stig í röð og minnkuðu muninn í eitt stig. Þróttur svaraði þá á ný og tókst að hanga á sigrinum, 25-23. Þróttur vann loks fjórðu hrinuna 25-17.
Paula Migueld de Blaz var stigahæst með 20 stig. Þróttur fór upp um tvö sæti og er í fimmta sæti. Liðið fær Þrótt Reykjavík í heimsókn um næstu helgi.
Úr karlaleiknum um helgina. Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða