Blak: Fyrsti sigur Þróttar í vetur

Kvennalið Þróttar vann sinn fyrsta leik í vetur þegar það lagði Aftureldingu í oddahrinu á laugardag. Karlaliðið tók líka á móti Mosfellsbæjarliðinu en tapaði að sama skapi í oddahrinu.

Þróttur leiddi fyrstu hrinu kvennaleiksins þar til staðan var 15-12. Afturelding skoraði þá fjögur stig í röð og komst yfir í 15-16 og kláraði hana 21-15. Gestirnir voru yfir framan af annarri hrinu, upp í 10-14 að Þróttur jafnaði í 14-14, komst yfir í 17-16 og kláraði hrinuna 25-19.

Sá sprettur entist út þriðju hrinuna sem Þróttur vann með yfirburðum 25-9. Að sama skapi hafði Afturelding nokkra yfirburði í þeirri fjórðu, vann hana 17-25 og knúði þar með fram oddahrinu. Jafnt var í henni upp í 5-5 en þá skoraði Þróttur þrjú stig í röð. Þar með var grunnurinn lagður að sigri, 15-8 í hrinunni og 3-2 í leiknum.

Paula Migel de Blaz var stigahæsta hjá Þrótti með 23 stig en Amelía Rún Jónsdóttir skoraði 17. Þróttur fékk tvö stig úr leiknum, þau fyrstu í vetur. Liðið er enn á botni deildarinnar.

Sækja stig í oddahrinur

Karlaleikurinn varð einnig hörkuspennandi. Liðin skiptust fimm sinnum á forustu í fyrstu hrinu sem lauk þó með sigri Aftureldingar, 22-25. Í þeirri næstu var Þróttur sterkari, komst yfir 7-6 og vann 25-15.

Afturelding leiddi þriðju hrinu nánast frá upphafi til enda, jafnt var 1-1 og 5-5 en síðan ekki fyrr en 24-24. Aftur komust gestirnir yfir, 25-24 en þá komu þrjú stig Þróttar, sem komst í fyrsta sinn yfir í hrinunni 26-25 og náði síðan sigurstiginu, 27-25.

En þar með var vindurinn úr heimaliðinu. Afturelding vann fjórðu hrinu 15-25 og tók strax völdin í oddahrinunni, komst í 1-6 og vann hana 10-15.

Miguel Angel Ramos Melero var stigahæstur hjá Þrótti með 17 stig og Jaime Monterroso Vargar skoraði 12. Þróttur er nú kominn með þrjú stig úr fjórum leikjum. Liðið hefur ekki enn unnið leik heldur sótt stigin með að knýja fram oddahrinur.

Karlaleiknum var flýtt um kortér þar sem áætlunarflugi til Reykjavíkur um kvöldið var flýtt vegna veðurspár. Það virtist samt ekki sitja í liðinu sem spilaði töluvert langan leik. Alls stóðu leikirnir tveir í fimm og hálfan klukkutíma.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.