Blak: Heimaleikjum kvennaliðsins lokið

Lið Þróttar í úrvalsdeild kvenna í blaki tapaði sínum síðasta heimaleik í deildinni á þessum vetri. Það kann að verða dýrt í harðri samkeppni um sæti í úrslitakeppninni.

Þróttur fékk Álftanes í heimsókn um síðustu helgi, en liðin eru tvö af þremur sem í hnapp eru um þriðja og fjórða sæti deildarinnar en fjögur efstu liðin komast í úrslitakeppnina.

Álftanes átti fyrsti hrinuna og vann hana 7-25. Sú næsta varð þrælspennandi en Álftanes vann hana eftir upphækkun, 25-27. Þriðja hrinan var einnig jöfn en gestirnir höfðu hana 22-25.

Ester Rún Jónsdóttir var stigahæst hjá Þrótti með 7 stig. Skörð hafa verið höggvin í liðið að undanförnu þar sem Covid hefur breiðst út á Norðfirði.

Þróttur er í þriðja sæti deildarinnar með 22 stig úr 16 leikjum, Afturelding í fjórða með 21 stig úr 15 leikjum og HK í fimmta með 20 stig úr 14 leikjum. Þróttur á eftir leiki gegn HK og Völsungi, sem er í sjötta sæti.

Karlaliðið tók á móti Vestra og hafði betur í oddahrinu eða 25-16, 24-26, 25-21, 18-25 og 15-13. Ramses Ballesteros varð stigahæstur með 19 stig.

Ólíklegt er að karlaliðið nái inn í úrslitakeppnina á þessari leiktíð. Það er í sjötta sæti með 21 stig úr 17 leikjum, þremur stigum á eftir Vestra í fimmta sæti og átta stigum frá KA í því fjórða.

Kvennaliðið spilar um næstu helgi við HK í átta liða úrslitum bikarkeppninnar.

Michell Traini smassar, Amelía Rún Jónsdóttir og Paula Miguel de Blaz í hávörn. Mynd: Sigga Þrúða


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.