Blak: Höfðu ekki við toppliðinu

Karlalið Þróttar í blaki tapaði 0-3 heima fyrir toppliði Hamars í úrvalsdeild um síðustu helgi. Liðin mættust í Neskaupstað. Leikurinn var þó jafnari en tölurnar gefa til kynna.

Þróttur var yfir í fyrstu hrinu 16-9 en glutraði því niður og tapaði eftir upphækkun, 24-26.

Næsta hrina var jöfn en Hamar vann hana 22-25. Sunnlendingar voru síðan alltaf með yfirhöndina í þeirri þriðju þótt munurinn væri aldrei verulegur. Þeir unnu hana 19-25.

Stigahæstir í liði Þróttar voru Jaime Monterroso og Andri Snær Sigurjónsson með níu stig hvor.

Lið Hamars er efst í deildinni með fullt hús stiga úr átta leikjum. Þróttur er í fjórða sæti með 13 stig úr sex leikjum. Liðið hefur leikið fæsta leiki í deildinni.

Kvennaliðið lagði Völsung 3-0 fyrir viku á heimavelli. Þróttur hafði yfirburði og vann hrinurnar 25-12, 25-12 og 25-20. Heiða Elísabet Gunnarsdóttir og Paula Miguel de Blaz voru stigahæstar hjá Þrótti, skoruðu 13 stig hvor.

Þróttur er í fimmta sæti deildarinnar með ellefu stig úr 8 leikjum.

Liðin taka bæði á móti HK um helgina og leika tvo leiki.

Mynd: Sigga Þrúða


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.