Blak: Karlaliðið endaði leiktíðina á sigri

Karlalið Þróttar vann sinn síðasta leik á leiktíðinni þegar það lagði Þrótt Vogum 1-3 á laugardag. Liðið náði ekki að komast í úrslitakeppnina. Þjálfari liðsins segir veikindi og meiðsli hafa sett svip sinn á veturinn.

Norðfjarðarliðið hafði nokkuð þægileg tök á leiknum gegn nafna sínum á laugardag eftir fyrstu tvær hrinurnar, en þær fóru 23-25, 25-21, 16-25 og 17-25.

Liðið átti hins vegar ekkert í HK á föstudagskvöld, tapaði þeim leik 3-0 eða 25-16, 25-12 og 25-20 í hrinum.

Þar með endaði liðið í sjötta sæti með 22 stig úr 20 leikjum, átta stigum frá úrslitakeppninni sem fjögur efstu liðin taka þátt í. Þrjú lið höfðu yfirburði í deildinni, þrjú lið börðust um fjórða sætið í úrslitakeppninni og tvö voru áberandi neðst.

Leiktíðinni er þar með lokið hjá karlaliðinu og segir þjálfarinn Gonzalo Garcia, að almennt verði að líta jákvætt á hana. Liðið hafi þó, eins og fleiri lið, orðið fyrir afföllum vegna Covid-faraldursins og meiðsla.

„Þetta hefur kannski hvorki haft meiri eða minni áhrif á okkur, en við höfum séð tvö ólík lið mæta til leiks. Eitt þegar allir okkar leikmenn voru heilir, hitt þegar þeir voru það ekki.

Við byrjuðum tímabilið frábærlega, unnum fjóra af fyrstu fimm leikjunum og áttum í fullu tré við lið eins og Hamar en í þeim leik byrjaði að molna úr hópnum. Við misstum Spánverjann Ramses Ballesteros og þurftum að byggja liðið meira á yngri leikmönnum. Það hefur þó þýtt að við höfum séð unga leikmenn spila sem verða framtíðin í Norðfjarðarliðinu.“

Garcia segir ljóst að breytingar verði á liðinu fyrir næstu leiktíð, þar með talið verið nýr þjálfari en hann hefur nú þjálfað í tvo vetur í Neskaupstað.

„Það þarf að byggja liðið upp aftur, eins og gerist reyndar við lok hverrar leiktíðar. Einhverjir leikmenn skipta um lið. Þess vegna er stjórn deildarinnar þegar byrjuð að leita að nýjum þjálfara til að leiða þetta nýja verkefni.“

Mynd: Sigga Þrúða


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.