Blak: Kvennaliðið komið í úrslitakeppnina

Kvennalið Þróttar Neskaupstað hefur tryggt sér sæti í úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í blaki. Liðið lauk deildakeppninni með 1-3 sigri á Völsungi á Húsavík í síðustu viku.

Eins og úrslitin bera með sér var Þróttur töluvert sterkari alinn nyrðra, vann fyrstu hrinu 20-25 og aðra 15-25.

Sú þriðja varð nokkuð sveiflukennd. Völsungur komst í 13-8 en Þróttur skoraði þá sex stig í röð og komst yfir 13-14. Austfjarðaliðið var áfram yfir upp í 19-23 en Völsungur minnkaði muninn í 21-23, jafnaði í 24-24 og vann 26-24 eftir upphækkun.

Þróttur var hins vegar sterkari aðilinn í fjórðu hrinunni og vann hana 22-25.

Með sigrinum komst Þróttur í þriðja sæti deildarinnar. Næstu tvö lið þar á eftir eiga bæði leiki inni, en ósigur HK fyrir Aftureldingu í síðustu viku þýðir að HK, sem er í fimmta sæti, getur ekki lengur náð Þrótti að stigum. Álftanes er stigi á eftir Þrótti og á leik inni, en sá er snúinn, gegn Aftureldingu. Ágætar líkur má því telja að Þróttur haldi þriðja sætinu.

Ekki er leikið í Íslandsmótinu um næstu helgi heldur verður úrslitakeppni bikarkeppninnar. Þar mætir Þróttur KA á laugardag í undanúrslitum.

Mynd: Sigga Þrúða


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.