Mynd: Sigga Þrúða

Blak: Mikil barátta í heimaleikjum helgarinnar

Á laugardaginn síðastliðinn tóku lið Þróttar Fjarðabyggðar á móti KA í tveimur æsispennandi heimaleikjum í úrvalsdeildum kvenna og karla í blaki. Fyrir leikinn voru lið KA sigurstranglegri en lið Þróttar mættu ákveðinn til leiks og gáfu ekkert eftir. Karlaleikurinn var spennandi og mikil barátta um stigin en Þrótturum tókst að tryggja sér sigur er leiknum lauk 3-1 og nældu sér í mikilvæg 3 stig. Kvennaleikurinn endaði í 5 hrinum, og endaði leikurinn 2-3 KA konum í vil. Þróttarstúlkur fengu því 1 stig úr leiknum og KA stúlkur fengu 2 stig með sér heim.

Karlaleikur

Karlaleikurinn var fyrstur. Fyrsta hrinan byrjaði af krafti hjá báðum liðum og fór á endanum í upphækkun en lauk með minnsta mun 27-25 fyrir Þrótt.

Þróttur hafði yfirburði í annarri hrinu höfðu og vann hana 25-17. Í þriðju hrinu skiptu KA menn um gír og leiddu næstum alla hrinuna og unnu 25-18. Í síðustu tveimur leikjum KA hafa þeir lent undir 2-0 og komið til baka og unnið leikina 3-2.

Í fjórðu hrinu komu Þróttarar til baka og tóku forskot strax í upphafi. Í stöðunni 8-4 tók þjálfari KA, Gígja Guðnadóttir, leikhlé. Þróttur hélt forskotinu út hrinuna og tókst að klára hrinuna 25-20 og unnu leikinn þar með 3-1.

Kvennaleikur

Í kvennaleiknum byrjuðu KA konur fyrstu hrinuna mun betur og með sterkum uppgjöfum unnu þær hrinuna auðveldlega 15-25. Þróttarstúlkur komu ákveðnar til leiks í annarri hrinu og kláruðu hana 25-17 og staðan því 1-1 í hrinum. Þróttur hélt áfram af sömu þrautseigju í þriðju hrinunni og vann þriðju hrinu 25-20.

Fjórða hrinan byrjaði betur hjá KA konum og fengu þær gott forskot. Með nokkrum skiptingum náði Þróttur að saxa á forskotið. Miguel Mateo Castrillo, þjálfari KA tók leikhlé í stöðunni 15-20. Leikhléið háði Þróttarstúlkum ekki en þeim tókst að minnka forskotið enn frekar í 19-21. Með góðri vörn og klókum sóknum náði Þróttur að jafna og staðan 22-22 þegar þjálfari KA tók annað leikhlé. Eftir klaufaleg mistök hjá Þrótti var staðan 23-24 og Miguel Angel Rameros, þjálfari Þróttar Fjarðabyggð tók leikhlé. Hnífjafnt var undir lok hrinunnar en hún endaði 24-26 og oddahrina því staðreyndin.

Oddahrinan hófst og var hnífjöfn þar sem liðin skiptust á stigum. Nokkur uppgjafamistök voru hjá báðum liðum. Það er dýrt að missa stig í oddahrinu. Lið KA náði að lokum yfirhöndinni og í stöðunni 9-11 tók þjálfari Þróttar Fjarðabyggð leikhlé. KA konur létu leikhléið ekki á sig fá og með sterkum uppgjöfum og sóknum komust þær í stöðuna 9-14. Þá tók þjálfari Þróttar annað leikhlé. Hrinunni lauk 10-15 og KA þar með sigurvegarar leiksins 2-3.

Mikill stuðningur var í stúkunni frá heimamönnum í báðum leikjum og ljóst að það sé gott að spila á heimavelli.

Mynd: Sigga Þrúða

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.