Blak: Mikilvægur sigur í baráttu um sæti í úrslitakeppninni

Kvennalið Þróttar vann afar mikilvægan sigur á HK, 1-3, í baráttu liðanna um sæti í úrslitakeppni Íslandsmótsins í blaki. Karlaliðið gerði hetjulega lokatilraun að sæti sín megin.

Þróttur hafði nokkuð örugg tök á HK, en liðin voru fyrir helgina í fjórða og fimmta sæti úrvalsdeildar kvenna.

Þróttur vann fyrstu hrinuna 18-25 og þá næstu 16-25. Liðið var yfir 16-23 í þeirri þriðju en glopraði þeirri forustu niður og tapaði 26-24.

Í fjórðu hrinu var Þróttur yfir 14-21 en HK jafnaði í 23-23 og komst yfir 26-25. Þróttur skoraði hins vegar síðustu þrjú stigi og vann 26-28.

Bæði var mikilvægt fyrir Þrótt að vinna þarna strax frekar en lenda í oddahrinu. Í slíkum liðum fær sigurliðið ekki nema tvö stig í stað þriggja eins og venjulega því tapliðið nær í eitt.

Þróttur er í fjórða sæti með 25 stig og hefur fimm stiga forskot á HK, sem reyndar á tvo leiki til góða. Þeir munu verða þrír áður en HK mætir næst til leiks, því Þróttur spilar sinn síðasta deildarleik gegn Völsungi á Húsavík á miðvikudagskvöld.

Tveir af síðustu þremur leikjum HK eru hins vegar gegn KA og Aftureldingu, sem haft hafa algjörlega yfirburði í vetur. Út frá því verður að teljast líklegt að Þróttur hafi með sigrinum um helgina tryggt sér sæti í úrslitakeppninni.

Enn er ekki útilokað að liðið nái þriðja sætinu af Álftanesi, sem er með 27 stig og leik til góða á Þrótt. Norðfjarðarliðið fer upp fyrir, ef það nær þremur stigum á Húsavík. Síðustu tveir leikir Álftaness eru hins vegar gegn Aftureldingu og KA.

Lokaatlaga karlaliðsins

Möguleikar karlaliðsins á að komast í úrslitakeppnina fjöruðu hins vegar út um helgina, þrátt fyrir góða tilraunir gegn efsta liðinu, Hamri, í Hveragerði um helgina. Hamar hafði aðeins tapað einum leik í vetur en komst nærri því í fyrri viðureigninni á laugardag.

Hamar vann fyrstu hrinu 25-16 en önnur hrina var jafnari. Bæði lið voru yfir um tíma, þó aldrei meira en með þremur stigum. Jafnt var í 24-24 og í kjölfarið fékk Þróttur tvisvar færi á að klára hrinuna áður en það tókst í 27-29.

Þróttur vann aðra hrinuna 20-25 en Hamar hafði algjöra yfirburði í þeirri fjórðu og vann hana 25-11. Þróttur leiddi oddahrinuna í 6-9 en Hamar skoraði þá fjögur stig í röð og kláraði hana að lokum 15-11.

Hamar hafði nokkra yfirburði í seinni leiknum á sunnudag, vann hann 3-0 eða 25-18, 25-16 og 25-19 í hrinum.

Vissulega hefði býsna margt þurft að ganga, bæði um helgina og í framhaldinu hjá Þrótti og mótherjum liðsins, til að liðið hefði náð í úrslitakeppnina. Liðið á tvo útileiki eftir og spilar þá um næstu helgi. Hvernig sem þeir fara er ljóst að liðið endar í sjötta sæti.

Mynd: Sigga Þrúða


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.