Blak: Mikilvægur sigur í baráttu um sæti í úrslitakeppninni
Kvennalið Þróttar vann afar mikilvægan sigur á HK, 1-3, í baráttu liðanna um sæti í úrslitakeppni Íslandsmótsins í blaki. Karlaliðið gerði hetjulega lokatilraun að sæti sín megin.Þróttur hafði nokkuð örugg tök á HK, en liðin voru fyrir helgina í fjórða og fimmta sæti úrvalsdeildar kvenna.
Þróttur vann fyrstu hrinuna 18-25 og þá næstu 16-25. Liðið var yfir 16-23 í þeirri þriðju en glopraði þeirri forustu niður og tapaði 26-24.
Í fjórðu hrinu var Þróttur yfir 14-21 en HK jafnaði í 23-23 og komst yfir 26-25. Þróttur skoraði hins vegar síðustu þrjú stigi og vann 26-28.
Bæði var mikilvægt fyrir Þrótt að vinna þarna strax frekar en lenda í oddahrinu. Í slíkum liðum fær sigurliðið ekki nema tvö stig í stað þriggja eins og venjulega því tapliðið nær í eitt.
Þróttur er í fjórða sæti með 25 stig og hefur fimm stiga forskot á HK, sem reyndar á tvo leiki til góða. Þeir munu verða þrír áður en HK mætir næst til leiks, því Þróttur spilar sinn síðasta deildarleik gegn Völsungi á Húsavík á miðvikudagskvöld.
Tveir af síðustu þremur leikjum HK eru hins vegar gegn KA og Aftureldingu, sem haft hafa algjörlega yfirburði í vetur. Út frá því verður að teljast líklegt að Þróttur hafi með sigrinum um helgina tryggt sér sæti í úrslitakeppninni.
Enn er ekki útilokað að liðið nái þriðja sætinu af Álftanesi, sem er með 27 stig og leik til góða á Þrótt. Norðfjarðarliðið fer upp fyrir, ef það nær þremur stigum á Húsavík. Síðustu tveir leikir Álftaness eru hins vegar gegn Aftureldingu og KA.
Lokaatlaga karlaliðsins
Möguleikar karlaliðsins á að komast í úrslitakeppnina fjöruðu hins vegar út um helgina, þrátt fyrir góða tilraunir gegn efsta liðinu, Hamri, í Hveragerði um helgina. Hamar hafði aðeins tapað einum leik í vetur en komst nærri því í fyrri viðureigninni á laugardag.
Hamar vann fyrstu hrinu 25-16 en önnur hrina var jafnari. Bæði lið voru yfir um tíma, þó aldrei meira en með þremur stigum. Jafnt var í 24-24 og í kjölfarið fékk Þróttur tvisvar færi á að klára hrinuna áður en það tókst í 27-29.
Þróttur vann aðra hrinuna 20-25 en Hamar hafði algjöra yfirburði í þeirri fjórðu og vann hana 25-11. Þróttur leiddi oddahrinuna í 6-9 en Hamar skoraði þá fjögur stig í röð og kláraði hana að lokum 15-11.
Hamar hafði nokkra yfirburði í seinni leiknum á sunnudag, vann hann 3-0 eða 25-18, 25-16 og 25-19 í hrinum.
Vissulega hefði býsna margt þurft að ganga, bæði um helgina og í framhaldinu hjá Þrótti og mótherjum liðsins, til að liðið hefði náð í úrslitakeppnina. Liðið á tvo útileiki eftir og spilar þá um næstu helgi. Hvernig sem þeir fara er ljóst að liðið endar í sjötta sæti.
Mynd: Sigga Þrúða