Blak: Þróttur vann nafna sinn - Myndir
Þróttur Neskaupstað vann í gærkvöldi Þrótt Reykjavík 1-3 í 1. deild kvenna í blaki í íþróttahúsi Kennaraháskólans. Fyrirliði liðsins segir það hafa verið óþarfa að tapa hrinunni.
Norðfjarðarliðið vann hrinurnar 13-25, 25-22, 11-25 og 12-25. Liðið var
yfir um miðja aðra hrinu en missti forskotið niður. Í þriðju og fjórðu
hrinu var jafnt með liðunum í fyrstu áður en gestaliðið gaf allt í botn.
„Það var lélegt að tapa þessari hrinu. Við eigum að geta unnið þetta lið
3-0,“ sagði Kristín Salín Þórhallsdóttir, fyrirliði Þróttar, í samtali
við Agl.is eftir leikinn.
„Mér fannst leikurinn kaflaskiptur. Við fengum stig þegar við gerðum
ekkert af viti og þegar við vorum að gera fullt af hlutum fengu þær
stig.“
Í hádeginu mætir Þróttur Ými í Kópavogi. „Við eigum líka að geta unnið það lið 3-0. Við þurfum bara að sofa úr okkur fyrst.“