Orkumálinn 2024

Blak: Sigur í fyrsta leik nýs árs

Þróttur Neskaupstað vann á miðvikudagskvöld Völsung 3-0 í úrvalsdeild kvenna í blaki í fyrsta leik sínum á nýju ári.

Þróttur byrjaði leikinn vel, náði fljótt fimm stiga forskoti í fyrstu hrinu, 7-2 sem Völsungi gekk illa að saxa á og vann loks 25-18.

Önnur hrinan var býsna jöfn, Þróttur var skrefi framar fyrst en Völsungur tók síðan við upp í 18-19. Þróttur negldi þá niður sjö stigum í röð og vann 25-19.

Í þriðju hrinunni var Völsungur feti framar upp í stöðuna 12-15. Þá átti Þróttur góðan kafla og komst í 18-15. Völsungi tókst eftir það að jafna þrisvar í 18-18, 23-23 og 24-24 en aldrei að komast yfir. Þróttur skoraði svo síðustu tvö stigin og vann 26-24.

Paula Migueld de Blaz var stigahæst hjá Þrótti með 15 stig en Amelía Rún Jónsdóttir skoraði 12. Sunna Júlía Þórðardóttir skoraði átta, flest beint úr uppgjöf. Það munaði fyrir Þrótt að fá Ester Rún Jónsdóttur til baka en hún hefur í haust glímt við veikindi og meiðsli.

Sigurinn breytti þó ekki stöðunni í deildinni, Þróttur er í fimmta sæti með 11 stig, tveimur stigum á eftir Völsungi. Kvennalið Þróttar leikur næst eftir viku en karlaliðið heldur um helgina vestur á Ísafjörð og spilar við Vestra.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.