Blak: Þróttur í þriðja sætið eftir frábæra leiki gegn HK

Kvennalið Þróttar hafði þriðja sæti úrvalsdeildar kvenna í blaki af HK með tveimur 3-0 sigrum á Kópavogsliðinu í Neskaupstað um helgina. Karlaliðinu gekk ekki jafn vel.

Í fyrri leik kvennaliðanna fór HK betur af stað og skoraði fyrstu sex stigin. Þróttur tók leikhlé og skoraði fyrsta stigið strax í kjölfarið. HK stelpur voru samt áfram vel yfir og voru nánast með unna hrinu í höndunum í stöðunni 17-21.

Þróttur skoraði þá sjö stig í röð. Með leikhléi náðist aftur að koma skikkan á leik HK, en hið óumflýjanlega varð aðeins tafið því Þróttur vann eftir upphækkun 24-26. Þróttur fylgdir þessu síðan eftir með 25-21 sigri eftir jafna aðra hrinu og bursti í þeirri þriðju, 25-12.

Seinni leikurinn byrjaði eins og þeim fyrri lauk, Þróttur skoraði fyrstu tíu stigin í honum og vann fyrstu hrinu 25-10. Í annarri hrinu var KA á undan upp í 10-11 en Þróttur snéri henni við og vann 25-18. Lokahrinan fór 25-19.

Ester Rún Jónsdóttir var stigahæst hjá Þrótti í fyrri leiknum með 14 stig en þeim seinni skoraði Maria Jimenez 12.

Með sigrunum hirti Þróttur þriðja sætið af HK, er komið í 17 stig úr 9 leikjum en liðin hafa leikið flesta leiki allra í deildinni. Kvennaliðið hefur þar með lokið keppni á þessu ári.

Karlaliðið tapaði

Karlalið Þróttar lék einnig tvo leiki við HK en þar vegnaði Kópavogsliðinu heldur betur. HK vann þann fyrri örugglega 0-3 eða 16-25, 17-25 og 18-25 í hrinum.

Í þeim seinni vann HK fyrstu hrinuna 16-25 og þá næstu 20-25 en Þróttur þá þriðju 25-22. Í henni snérist taflið aðeins við, HK var fyrir í blábyrjun eins og Þróttur hafði verið fyrri tvær. HK kláraði þó þriðju hrinuna örugglega, 15-25.

Andri Snær Sigurjónsson var stigahæstur hjá Þrótti í fyrri leiknum með 8 stig en Jóse Federico í þeim seinni með 11. Í honum réðu Þróttarmenn ekkert við Hristyan Dimitrov sem skoraði 33 stig.

Þróttur er í fjórða sæti með 13 stig úr 8 leikjum. Liðið á enn leiki til góða á önnur lið deildarinnar. Liðið leikur sinn síðasta leik á árinu gegn KA á Akureyri um næstu helgi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.