BN dregur sig úr keppni

Boltafélag Norðfjarðar hefur dregið sig úr keppni fyrir umspil um sæti í fimmtu deild Íslandsmóts karla í knattspyrnu á næsta ári.

BN endaði í fimmta sæti E-riðils og átti samkvæmt því að spila umspil næstu tvo laugardaga við Rangæinga um sæti í nýrri fimmtu deild.

Af því verður ekki þar sem BN hefur dregið lið sitt úr keppni. Það hefur undanfarnar vikur glímt við mikla manneklu og var dæmt tap í jafntefli gegn Einherja í lok júlí eftir að hafa notað leikmenn sem skráðir voru í önnur félög.

Síðasti deildarleikur liðsins var gegn Spyrni síðastliðið föstudagskvöld. Í 14 manna leikmannahópi BN þá voru sex leikmenn skráðir í önnur lið, þar af fimm í byrjunarliði. Flestir komu úr venslafélaginu, KFA.

Samkvæmt reglum KSÍ hefði BN farið í nýja utandeild hefði það tapað gegn Rangæingum í KFR. Það lið fer nú beint í fimmtu deildina meðan Álafoss og Samherjar spila um hitt lausa sætið. Tapliðin fara í nýja utandeild. Framtíð BN í Íslandsmóti, þar sem liðið spilaði í fyrsta sinn nú í sumar, skýrist því á næstu vikum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar