Brynjar Skúla: Skelfilegur völlur sem ekki var hægt að spila fótbolta á

Brynjar Skúlason, þjálfari Knattspyrnufélags Austfjarða í annarri deild karla, var ekki hrifinn af vallaraðstæðum á Vilhjálmsvelli í gærkvöldi þar sem lið hans gerði 2-2 jafntefli við Hött/Huginn.

„Mér fannst við allt í lagi í fyrri hálfleik og fínir fyrstu 15-20 mínúturnar í seinni hálfleik gátum ekkert síðustu tuttugu mínúturnar,“ sagði Brynjar um frammistöðu KFA í leiknum.

Hann fylgdist með leiknum ofan úr stúku eftir að hafa fengið rautt spjald um síðustu leiki. „Það var ógeðslega leiðinlegt,“ svaraði Brynjar aðspurður um hvernig hefði verið að fylgjast með leiknum úr brekkunni.

En það var ekki bara það að mega ekki vera á bekknum sem ergði Brynjar. „Þetta er skelfilegur völlur sem ekki er hægt að spila fótbolta á, enda var enginn bolti spilaður hér í 90 mínútur.

Þegar leikmenn skutu á markið fór boltinn 50 metra upp í loftið og 30 metra framhjá. Varla var hægt að senda sendingu enda spilaði Höttur „kick and run“ allan leikinn. Því miður vorum við ekki nógu góðir að verjast því, við erum ekki með nógu hávaxið lið.“

Ekki það að KFA liðið hafi verið saklaust um að beita löngum sendingum, einkum í fyrri hálfleik. „Við reyndum þó að spila smá en völlurinn býður því miður ekki upp á að spila fótbolta,“ svaraði Brynjar þegar bent var á að KFA hefði beitt sömu aðferð og Höttur/Huginn.

KFA hefur ekki enn unnið leik í sumar en þrisvar gert jafntefli. Í þeim öllum hefur liðið verið í góðri stöðu líkt og í gær en jöfnunarmark Hattar/Hugins kom í uppbótartíma. „Þetta er drullu súrt.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.