Efna til freyðivínshlaups á Reyðarfirði

Freyðivínshlaup verður ræst við tjaldsvæðið á Reyðarfirði í dag. Aðstandendur hlaupsins segjast hafa efnt til eigin viðburðar þar sem þeir eigi erfitt með að sækja slíkan viðburð í Reykjavík. Engin tímataka er í hlaupinu heldur áhersla á að allir komist í mark á sínum forsendum.

„Það hafa verið svona hlaup í Elliðaárdalnum undanfarin ár. Við ætluðum að vera með okkar á sama tíma og það, á morgun, en veðurspáin í dag var miklu betri þannig við kýldum á þetta,“ segir Hjördís Helga Seljan, einn aðstandenda hlaupsins.

„Við erum nokkrar vínkonur hér sem höfum áhuga á freyðivíni, hreyfingu og góðum félagsskap. Okkur langaði suður en komumst ekki þannig við skipulögðum okkar eigið,“ bætir hún við.

Hlaupið verður ræst frá tjaldsvæðinu klukkan 18:00 í dag en mæting er 17:30. Farin verður eftir göngustíg að Grænafelli og til baka, alls 5 km. Fagfólk stýrir upphitun til að fyrirbyggja meiðsli meðal þátttakenda. „Jú – þetta er alltof langt – en það fara þetta allir á sínum hraða, skiptast á að hlaupa og labba. Það verður engin tímataka heldur er hlaupið búið klukkan átta,“ útskýrir Hjördís.

Tuttugu ára aldurstakmark er í hlaupið og skuli allir þátttakendur mæta með 750 ml freyðivínsflösku. Þeim er síðan deilt út á drykkjarstöðvar sem eru á leiðinni. Þátttakendur þurfa að mæta með eigið drykkjarílát og verða einu verðlaunin í kvöld veitt fyrir frumlegasta ílátið.

Ekki skiptir máli hvort freyðivínið er óáfengt eða áfengt. Hjördís segir engu skipta þótt hið óáfenga sé líklega frammistöðubætandi í þessu tilfelli þar sem hlaupið snúist ekki um hver komi fyrstur í mark. „Þetta er fyrir þá sem eru kannski ekki miklir hlauparar en langar samt að vera með.“

Þátttakendur eru einnig hvattir til að mæta í sumarkjólum þótt leyfilegt sé að vera í hvaða klæðnaði sem er.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.