„Egilsstaðir – Fjós allt í kringum mig“

Skotið er á borgarstjóra en fjósalyktinni hampað í sérstöku stuðningsmannalagi Hattar sem gefið hefur verið út fyrir úrslitakeppni bikarkeppninnar í körfuknattleik karla. Höttur spilar þar í fyrsta sinn og mætir Val á morgun í undanúrslitum.

„Við vildum reyna að búa til samnefnara sem við úti á landi getum verið hreykin og stolt af en um leið kynda undir höfuðborgarsvæðinu og helstu vandamálum þess.

Þar er svifryk og rifrildi um Vatnsmýrina. Við ætluðum að koma fleiru að en það náðist ekki. Svo er sungið um að eitthvað betra sé til og á Egilsstöðum er fjós og fjósalykt. Það er miklu betra en svifrykið,“ segir Óttar Steinn Magnússon, stuðningsmaður Hattar.

Hann skrifaði textann ásamt Hafliða Bjarka Magnússyni, Markúsi Eyþórssyni og Ástráði Ása Magnússyni. Árni Pálsson syngur en Óttar Brjánn Eyþórsson útsetti og spilaði undir. Textinn er saminn við lag Sóldaggar „Svört sól“.

Í viðlaginu, segir meðal annars: „Egilsstaðir, fjós allt í kringum mig, lyktin sem ég leita að. Egilsstaðir, Höttur í höllinni, bikarinn á nýjan stað.“ Í erindum er sungin lofgjörð til leikmanna og þjálfara Hattar.

En þar er líka talað um „Austurlandið á einum stað, sameinað.“ „Við vonumst til að allir Austfirðingar geti sameinast um að styðja Hött í þessum leik. Þetta er einstakt tækifæri, við höfum ekki verið í svona tækifæri áður og vitum ekki hvort eða hvenær við verðum það aftur,“ segir Óttar Steinn.

„Þetta er fyrst fremst til gamans gert. Miðað við það hafa viðtökurnar orðið meiri og betri en við áttum nokkurn tíma von á. Um það snúast þessir leikir, að hafa gaman.“

Svo virðist sem Egilsstaðabúar séu ákveðnir í að hafa gaman því þeir hafa verið duglegir að kaupa miða á leikinn á morgun. „Síðast þegar ég vissi höfðu ferfalt fleiri stuðningsmenn Hattar keypt miða en hjá Val. Það verður upphitun í Minigarðinum. Þar hafa yfir 150 manns bókað miða sem er mun meira en við áttum von á. Síðan heyrum við að því núna að fólk sé að stökkva til í stemminguna og græja flug suður þannig ég held það bætist enn við fjöldann, enda einhverjir miðar lausir enn,“ segir Óttar Steinn að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.