„Einstök umhyggja sem íþróttafólkinu er sýnd“

Heidi Giles kaus að ganga á ný til liðs við Fjarðabyggð/Hött/Leikni í fyrstu deild kvenna í knattspyrnu til að ná sér á strik eftir að hafa slitið krossband á síðustu leiktíð. Hún segir afar vel búið að íþróttafólki á Íslandi.

Þetta kemur fram í viðtali við Heidi á vef umboðsskrifstofu hennar, Pro Soccer Consulting (PSC). Heidi kom upphaflega til liðsins í ágúst 2020 og spilaði með því síðustu leikina það sumar.

Í fyrra samdi hún við lið í Ungverjalandi en sleit krossband í fyrsta leik. „Þetta er frábær staður með yndislegu fólki sem sýnir íþróttafólki einstaka umhyggju,“ segir Heidi um af hverju hún hafi kosið að snúa aftur til Íslands.

Hún segir meiðslin hafa tekið á sig bæði andlega og líkamlega en hún sé þakklát öllum þeim sem sýnt hafi henni stuðning, einkum fjölskyldunni sem staðið hafi þétt við bakið á henni. Haft er eftir yfirmanni hjá PSC að Heidi hafi sýnt mikla þrautseigju við að koma sér aftur af stað eftir erfið meiðsli.

Heidi er 24 ára gömul og spilar sem miðvörður. Hún er fædd í Kanada, á danska móður og kanadískan föður en fór í háskóla í Bandaríkjunum á skólastyrk. Hún var til reynslu hjá dönskum liðum sumarið 2020 áður en hún samdi við Fjarðabyggð/Hött/Leikni.

Hún segist stefna á að hjálpa liðinu að ná markmiðum sínum í sumar sem sé að verða meðal efstu þriggja liðanna, þrátt fyrir að vera nýkomið upp um deild. Hún hælir einnig þjálfaranum, Björgvini Karli Gunnarssyni, sem hún segir hugsa vel um liðið.

„Hann veit það er alltaf hægt að gera betur, hann er aldrei fullkomlega sáttur. Það eina sem hann krefst af liðinu er að það hafi gaman af fótboltanum og standi sig vel. Hann hvetur það áfram hvern dag en virðir líka þörfina fyrir hvíld.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.