Fimleikalið Hattar á leið á Norðurlandamót - Myndir

Blandað lið Hattar í unglingaflokki ávann sér þátttökurétt á Norðurlandamóti unglinga í hópfimleikum með frábærum árangri á bikarmóti í Grafarvogi um síðustu helgi. Þetta er í fyrsta sinn sem austfirskt fimleikalið kemst á Norðurlandamót.

„Selfoss hefur nokkrum sinnum sent lið en annars hafa bara liðin af höfuðborgarsvæðinu farið. Við erum lítið félag úti á landi svo á okkar mælikvarða er mjög stórt að senda lið á þetta mót,“ segir Kristinn Már Hjaltason, aðalþjálfari liðsins.

Norðurlandamót unglinga hefur verið haldið á tveggja ára fresti með liðum frá Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi auk Íslands. Keppt er í flokki kvenna, karla og blandaðra liða. Hvert land getur sent tvö lið í hverjum flokki, en Ísland sendir aðeins fjögur lið í heildina þar sem ekki er tiltækt karlalið.

Hörð keppni við Gerplu

Ásamt Hetti sendir Gerpla blandað lið út. Þetta varð ljóst á bikarmótinu um helgina. Upphaflega átti að halda tvö mót, en hið fyrra var fellt niður vegna Covid-faraldursins. Fyrir tveimur vikum var síðan haldið innanfélagsmót sem tekið var upp og átti að gilda fyrir dómara hefði Hattarliðið einhverra hluta vegna ekki getað keppt á bikarmótinu. Það stóð tæpt því þrír liðsmenn veiktust í vikunni fyrir.

En síðan gekk nánast allt upp. „Við urðum bikarmeistarar í æfingum á dýnu og gólfi og vorum í hörkukeppni við Gerplu um sjálfan bikartitilinn þar sem munaði 0,1 stigi í lokin,“ segir Kristinn.

Norðurlandamótið er haldið á tveggja ára fresti, nema að vegna faraldursins var ekki mót 2020. Fjögurra ára bið er því orðin nú eftir móti. Kristinn Már, sem sjálfur keppti á tveimur Norðurlandamótum meðan hann æfði með Stjörnunni, segir mikla reynslu að fara á slíkt mót.

„Fyrir marga af okkar krökkum er þetta fyrsta alþjóðlega mótið. Reynslan af því er góð, til dæmis fyrir þau sem stefna á landslið. Þetta mót er af allt annarri stærðargráðu en íslensku mótin.“

Samheldinn hópur

Unglingaflokkurinn er skipaður iðkendum á aldrinum 14-17 ára. Í honum eru 15 iðkendur, sjö stelpur og átta strákar. „Þau hafa flest æft saman í ein fimm ár og kunna íþróttina orðið vel. Við erum mjög ánægð hversu vel hefur tekist að halda þeim í fimleikum,“ segir Kristinn Már sem þjálfað hefur strákana í sjö ár.

Allir iðkendur fara með í ferðina til Danmerkur. Tíu keppa en tveir verða til vara. Vandasamt verk er því framundan hjá þjálfurunum. „Við höfum talað um það í allan vetur að erfiðasta verkefni þjálfarans sé að velja liðið þegar liðið er svona samheldið og æfir alltaf vel,“ segir Kristinn sem þjálfar liðið ásamt Dímu Pálsdóttir og Elísabetu Örnu Gunnlaugsdóttur.

Auk iðkenda og þjálfara fylgir stór hópur foreldra liðinu á mótið sem haldið verður í Danmörku 7. – 10. apríl. Kristinn segir mikið verk að senda slíkt lið að austan. „Þetta er mikið verk því okkar ferð er tveimur dögum lengra en liðanna að sunnan. Við reynum að niðurgreiða ferðina sem mest fyrir iðkendur og erum því að að safna styrkjum. Fyrirtæki á svæðinu hafa tekið okkur vel auk þess sem við höfum sótt um til Múlaþings og UÍA.“

Myndir frá æfingamóti Hattar.

Hottur Fimleikalid Feb22 0009 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0023 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0025 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0036 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0044 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0046 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0064 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0068 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0075 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0084 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0097 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0105 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0141 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0156 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0160 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0165 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0167 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0169 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0174 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0176 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0177 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0187 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0192 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0200 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0214 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0218 Web
Hottur Fimleikalid Feb22 0123 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.