Formaður UMFÍ: Austfirðingar eru staðráðnir í að halda besta Unglingalandsmótið
Helga Guðjónsdóttir, formaður Ungmennafélags Íslands, segist finna fyrir krafti meðal mótshaldara Unglingalandsmóts sambandsins sem verður á Fljótsdalshéraði í sumar. Borgarafundur þar sem mótið var kynnt var haldinn á Egilsstöðum í gærkvöldi.
Á fundinum var meðal annars undirritaður samningur milli sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs, UMFÍ og UÍA um mótið. Fljótsdalshérað leggur til aðstöðu og ýmsa þjónustu en UÍA heldur mótið. Áætlað er að um 3-400 sjálfboðaliðar komi að mótinu um verslunarmannahelgina.
Helga Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ sagðist finna fyrir krafti meðal mótshaldara á svæðinu sem hún sagði „staðráðna í að halda besta Unglingalandsmót sem haldið hefur verið.“
Á fundi undirbúningsnefndar í gær var gengið frá ráðningu verkefnisstjóra, Heiðar Vigfúsdóttur, sem kemur til starfa síðar í mánuðinum. Enn hafa keppnissvæði í knattspyrnu og mótorkrossi ekki verið staðfest en þau mál eru í vinnslu.
Búist er við að um 8000-10.000 gestir sæki mótið. Gert er ráð fyrir 1200-1700 keppendum en metþáttaka, 1700 manns, var í Borgarnesi í fyrra. Mótshaldarar óttast ekki að fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu dragi úr hug gesta. Þvert á móti er mótið orðið fastur liður í sumarferðum margra fjölskyldna og starfi héraðssambanda. Margir hlakki til að heimsækja Fljótsdalshérað í fyrsta sinn. Nýjar keppnisgreinar hafa bæst við en í ár verður í fyrsta sinn keppt í fimleikum.
Nýir samstarfsaðilar hafa verið kynntir til sögunnar sem eru Eimskip og Alcoa. Auglýst hefur verið eftir félagasamtökum sem áhuga hafa á veitingasölu á mótinu en hún hefur oft reynst þeim drjúg. Áfram verður rætt við heimamenn um ýmsa þjónustu sem viðvíkur mótinu og verða verslanir meðal annars opnar lengur. Mótið verður nánar rætt á ársþingi UÍA sem haldið verður á Eskifirði á morgun.