Fótbolti: Einherji í góðri stöðu eftir fyrsta umspilsleik
Karlalið Einherja er í góðri stöðu eftir 0-3 sigur á Árborg í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum fjórðu deildar karla í knattspyrnu. KFA náði í mikilvæg stig í botnbaráttu annarrar deildar meðan Ægir stöðvaði sigurgöngu Hattar/Hugins.Öll mörkin í leik Einherja í útileiknum gegn Árborg komu í seinni hálfleik. Stefan Balev skoraði fyrst á 63. mínútu, Miguel Angel bætti við öðru á 77. en á áttundu mínútu uppbótartíma skoraði Carlos Javier það þriðja.
Liðin mætast aftur á Vopnafirði á morgun. Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst í undanúrslit. Að lokum verða það þó aðeins tvö efstu liðin sem komast upp í þriðju deildl
Kvennalið Einherja fer líka vel af stað í umspili neðri hluta annarrar deildar kvenna, hefur þar unnið tvo fyrstu leikina. Um helgina vann liðið Álftanes á Vopnafirði 3-0.
Líkt og í karlaleiknum var markalaust í hálfleik en Coni Ion kom Einherja yfir á 63. mínútu, Amanda Lind Elmarsdóttir bætti við öðru marki úr víti á 69. mínútu áður en Coni bætti þriðja markinu við tveimur mínútum fyrir leikslok.
KFA náði í mikilvægt stig í fallbaráttu annarrar deildar karla þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við botnlið Magna á Grenivík. Fyrirliðinn Vice Kendes jafnaði leikinn fyrir KFA á 83. mínútu. Með jafnteflinu féll Magni.
KFA er nú fimm stigum frá fallsætinu þegar tveir leikir eru eftir. Liðið mætir Víkingi Ólafsvík um næstu helgi á heimavelli. Sigur þar myndi tryggja veru liðsins í deildinni áfram. Í lokaleiknum spilar liðið við Reyni. Tapi KFA um næstu helgi og Reynir vinnur verður það hreinn úrslitaleikur um hvort liðið heldur sér í deildinni.
Ægir úr Þorlákshöfn batt enda á níu leiki Hattar/Hugins án ósigurs þegar liðin mættust á Egilsstöðum um helgina. Gestirnir skoruðu eina mark leiksins strax á annarri mínútu.
Mynd: Unnar Erlingsson