Fótbolti: Einherji í góðri stöðu eftir fyrsta umspilsleik

Karlalið Einherja er í góðri stöðu eftir 0-3 sigur á Árborg í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum fjórðu deildar karla í knattspyrnu. KFA náði í mikilvæg stig í botnbaráttu annarrar deildar meðan Ægir stöðvaði sigurgöngu Hattar/Hugins.

Öll mörkin í leik Einherja í útileiknum gegn Árborg komu í seinni hálfleik. Stefan Balev skoraði fyrst á 63. mínútu, Miguel Angel bætti við öðru á 77. en á áttundu mínútu uppbótartíma skoraði Carlos Javier það þriðja.

Liðin mætast aftur á Vopnafirði á morgun. Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst í undanúrslit. Að lokum verða það þó aðeins tvö efstu liðin sem komast upp í þriðju deildl

Kvennalið Einherja fer líka vel af stað í umspili neðri hluta annarrar deildar kvenna, hefur þar unnið tvo fyrstu leikina. Um helgina vann liðið Álftanes á Vopnafirði 3-0.

Líkt og í karlaleiknum var markalaust í hálfleik en Coni Ion kom Einherja yfir á 63. mínútu, Amanda Lind Elmarsdóttir bætti við öðru marki úr víti á 69. mínútu áður en Coni bætti þriðja markinu við tveimur mínútum fyrir leikslok.

KFA náði í mikilvægt stig í fallbaráttu annarrar deildar karla þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við botnlið Magna á Grenivík. Fyrirliðinn Vice Kendes jafnaði leikinn fyrir KFA á 83. mínútu. Með jafnteflinu féll Magni.

KFA er nú fimm stigum frá fallsætinu þegar tveir leikir eru eftir. Liðið mætir Víkingi Ólafsvík um næstu helgi á heimavelli. Sigur þar myndi tryggja veru liðsins í deildinni áfram. Í lokaleiknum spilar liðið við Reyni. Tapi KFA um næstu helgi og Reynir vinnur verður það hreinn úrslitaleikur um hvort liðið heldur sér í deildinni.

Ægir úr Þorlákshöfn batt enda á níu leiki Hattar/Hugins án ósigurs þegar liðin mættust á Egilsstöðum um helgina. Gestirnir skoruðu eina mark leiksins strax á annarri mínútu.

Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.