Fótbolti: Einherji kominn upp í þriðju deildina – Myndir
Einherji er kominn á ný upp í þriðju deild karla í knattspyrnu eftir 5-2 sigur á Siglingaklúbbnum Ými í seinni leik liðanna í undanúrslitum deildarinnar á Vopnafjarðarvelli í gærkvöldi.Segja má að leikurinn í gærkvöldi hafi verið formsatriði eftir 1-5 stórsigur Einherja í fyrri leiknum. Staða þeirra varð enn betri þegar Alejandro Lechuga kom heimamönnum yfir strax á fimmtu mínútu eftir gott spil.
Eftir þetta voru það hins vegar Ýmismenn sem réðu ferðinni. Þeir höfðu tökin á miðjunni og fengu nokkur þokkaleg færi en jöfnuðu ekki fyrr en á 43. mínútu.
Ingvi Ingólfsson, þjálfari Einherja, gerði breytingar til að reyna að hrifsa miðjuna úr klóm Ýmismanna. Það tók þó sinn tíma en þegar á leið leikinn náðu Vopnfirðingar á tökunum á miðjunni og þar með leiknum.
Þegar á leið sást betur sá leikur sem Einherjamenn hafa sýnt í sumar og lagt grunninn að því að liðið hefur farið taplaust í gegnum fjórðu deildina. Maxim gekk vel að deila boltanum út af miðjunni, kantmennirnir, einkum Lechuga, hrelldu bakverði andstæðinganna, ágæta hápressa á köflum sem skilaði unnum boltum framar á vellinum. Síðast en ekki síst eru Einherjamenn eldri en mörg liðanna í deildinni og því einfaldlega líkamlega sterkari sem skilar sínu.
Þeir voru farnir að herða tökin þegar Maxim Iurcu kom þeim aftur yfir á 66. mínútu þegar hann fylgdi eftir skoti sem var varið. Forustan entist þó ekki nema í mínútu þegar Ýmismenn jöfnuðu úr víti sem dæmt var fyrir hrindingu utarlega í teignum.
Þremur mínútum síðar voru Vopnfirðingar komnir yfir aftur, markið skoraði Stefan Balev sem kom inn í hálfleik. Heiðar Aðalbjörnsson, sem einnig kom inn á þá, kom Einherja í 4-2 með hörkuskoti sem sveif í laglegan boga yfir markvörð Ýmis á 87. mínútu.
Fimmta markið kom á fimmtu mínútu uppbótartíma. Það skoraði Ruben Riesco úr víti. Hann hafði leikið upp vinstri kantinn og gefið inn á teiginn á Balev. Pirraðir Ýmismenn höfðu reynt að brjóta á þeim báðum á leiðinni, en það var loks markvörðurinn sem felldi Balev er hann var á leið framhjá honum.
Einherji er þar með kominn upp aftur í þriðju deildina eftir eins árs veru í fjórðu deildinni. Liðið á einn leik eftir, úrslitaleik um deildarmeistaratitilinn við Árbæ á Sauðárkróki á laugardag.