Fótbolti: Einherji örugglega í undanúrslit

Lið Einherja er komið í undanúrslit fjórðu deildar karla í knattspyrnu eftir 5-0 sigur á Árborg í tveimur leikjum í átta liða úrslitum.

Liðin mættust í seinni leiknum á Vopnafirði í gær. Vopnfirðingar voru í góðri stöðu eftir 0-3 sigur í fyrri leiknum.

Staðan varð enn vænlegri eftir að Ruben Riesco kom þeim yfir á 37. mínútu. Maxim Iurcu skoraði svo annað mark á 77. mínútu.

Bar það helst til tíðinda sem eftir lifði leiks að Björgvin Geir Garðarsson, sem yfirleitt hefur staðið í marki Einherja, kom inn á sem sóknarmaður í stað markahróksins Stefans Balevs í uppbótartíma.

Tvö lið úr fjórðu deildinni fara upp í þriðju deild og er leikið um það. Í undanúrslitum mætir Einherji Ými úr Kópavogi. Það lið fór áfram eftir nágrannaslag við KFK. Ýmir vann fyrri leikinn 3-4 en sá seinni í gær varð heldur skrautlegur.

Sex rauð spjöld fóru á loft, þar af fimm á heimaliðið KFK í framlengdum leik. Ýmir tryggði sér sæti í undanúrslitum með tveimur mörkum á lokamínútu framlengingar.

Þó nokkrir Austfirðingar eru í herbúðum KFK. Má þar nefna Rúnar Frey Þórhallsson, fyrrum fyrirliða Hugins sem byrjaði leikinn í gær, annars Seyðfirðingur Emil Smári Guðjónsson var meðal varamanna, þjálfarinn Vilhjálmur Búi Guðjónsson þjálfaði yngri flokka Hattar árum saman og sjúkraþjálfari liðsins er Steinar Aron Magnússon, fyrrum leikmaður Hattar.

Þeir koma hins vegar ekki austur að þessu sinni. Einherji leikur fyrri leik sinn gegn Ými í Kópavogi á laugardag en seinni leikurinn verður á Vopnafirði næsta miðvikudag.

Mynd: Einherji


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar