Fótbolti: Einherji og Spyrnir byrja vel í fjórðu deildinni

Einherji og Spyrnir hafa unnið fyrstu tvo leiki sína í E riðli fjórðu deildar karla í knattspyrnu í sumar. KFA náði í sitt annað stig í sumar og Linli Tu heldur áfram að skora fyrir Fjarðabyggð/Hött/Leikni.

Einherji tók á móti Hömrunum á laugardag. Stefan Balev skoraði strax á 9. mínútu en gestirnir jöfnuðu úr víti á 28. mínútu. Helgi Már Jónsson kom Einherja aftur yfir tíu mínútum fyrir leikhlé. Carlos Javier skoraði þriðja mark Einherja á 79. mínútu og Alejandro Barce það fjórða fimm mínútum fyrir leikslok. Annað mark gestanna kom í uppbótartíma.

Mörkin voru öllu færri þegar Spyrnir vann Samherja á Hrafnagilsvelli. Gamla brýnið Þórarinn Máni Borgþórsson skoraði eina markið úr vítaspyrnu á 17. mínútu.

Einherji og Spyrnir hafa unnið tvo fyrstu leiki sína í deildinni. BN og Máni mætast á Norðfjarðarvelli í kvöld en þau töpuðu fyrir fyrrnefndu tveimur liðunum í fyrstu umferð.

Í annarri deild karla gerði KFA jafntefli 1-1 gegn Völsungi á heimavelli. Tómas Atli Björgvinsson skoraði eina mark KFA á 18. mínútu en Húsvíkingar jöfnuðu eftir tólf mínútur í seinni hálfleik.

Mathesu Bettio skoraði strax á sjöttu mínútu fyrir Hött/Huginn gegn Magna á Grenivík á föstudagskvöld. Rafal bætti við öðru tveimur mínútum fyrir leikhlé og staðan leit vel út fyrir liðið úr Múlaþingi. Þá kviknaði á Kristni Óskari Óskarssyni sem minnkaði muninn í uppbótartíma, jafnaði eftir sjö mínútur í seinni hálfleik og kom Magna yfir á 60. mínútu úr víti. Hann hafði þannig skorað þrennu á innan við 15 mínútna leiktíma.

Höttur/Huginn er á botninum, stigalaus eftir þrjár umferðir en KFA er skömmu ofar með tvö stig. Höttur/Huginn tekur á móti Ægi í 32 liða úrslitum bikarkeppninnar á Fellavelli annað kvöld.

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir tapaði sínum fyrsta leik í Lengjudeild kvenna í sumar gegn FH sem þar með náði efsta sætinu. Linli Tu kom Austfjarðaliðinu yfir á 23. mínútu og þannig var í hálfleik. Tvö mörk FH á fyrsta kortérinu í seinni hálfleik snéri leiknum gestunum í vil.

Í annarri deild kvenna tapaði Einherji sínum fyrsta leik, 3-1 gegn Álftanesi. Yoana Peralta skoraði mark Einherja eftir hálftíma leik.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.