Fótbolti: Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir nálgast toppbaráttuna á ný
Lið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis nálgast toppbaráttu næst efstu deildar kvenna á ný eftir að hafa hikstað fyrr í mánuðinum. Kvennalið Einherja vann sinn annan leik í sumar.FHL vann Augnablik 3-1 á heimavelli á laugardag. Linli Tu skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik en Björg Gunnlaugsdóttir bætti því þriðja við um miðjan seinni hálfleik. Mark gestanna kom úr vítaspyrnu í uppbótartíma.
Eftir leikinn er FHL með 21 stig en er 3-4 stigum á eftir Tindastóli og HK sem eru næst fyrir ofan. Liðið spilar gegn toppliði FH í Hafnarfirði á miðvikudag.
Einherji vann ÍH 4-1 í annarri deild kvenna á Vopnafirði á laugardag. Yoana Peralta kom Einherja yfir á 18. mínútu, Oddný Karólína Hafsteinsdóttir bætti við öðru marki þremur mínútum síðar. Hafnafjarðarliðið minnkaði muninn en Oddný Karólína skoraði aftur á 36. mínútu. Kamilla Huld Jónsdóttir skoraði fjórða markið í seinni hálfleik. Einherji tekur á móti Völsungi á fimmtudag.
Í annarri deild karla náði Höttur/Huginn í stig gegn ÍR á heimavelli. Stefán Ómar Magnússon kom Hetti/Huginn yfir á 32. mínútu en gestirnir jöfnuðu í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Meira var ekki skorað í leiknum. KFA tapaði 4-0 fyrir Fjallabyggð. Öll mörkin voru skoruð í seinni hálfleik.
Höttur/Huginn er í 10. sæti með 11 stig, fimm stigum frá Reyni og Magna sem eru þar fyrir neðan í fallsætunum. KFA er með 15 stig, í hnapp með Fjallabyggð og ÍR. Fallslagur verður á Egilsstöðum á miðvikudag þegar Höttur/Huginn tekur á móti Magna en KFA spilar gegn Völsungi á Húsavík.
BN og Máni mættust í fyrsta meistaraflokksleiknum sem spilaður er á Búðagrund árum saman en bæjarhátíðin Franskir dagar fór þar fram um helgina. Freysteinn Bjarnason skoraði þrennu í 5-3 sigri BN.
Spyrnir tapaði 5-2 fyrir Samherjum í Eyjafirði. Viktor Ingi Sigurðsson og Steinþór Hrímnir Aðalsteinsson skoruðu mörk Spyrnis. Þar með má segja að Spyrnir hafi stimplað sig endanlega út úr möguleikanum á að komast í úrslitakeppni deildarinnar en þarf hins vegar að hirða stig til að dragast ekki inn í umspil um sæti í fimmtu deildinni.