Fótbolti: Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir nálgast toppbaráttuna á ný

Lið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis nálgast toppbaráttu næst efstu deildar kvenna á ný eftir að hafa hikstað fyrr í mánuðinum. Kvennalið Einherja vann sinn annan leik í sumar.

FHL vann Augnablik 3-1 á heimavelli á laugardag. Linli Tu skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik en Björg Gunnlaugsdóttir bætti því þriðja við um miðjan seinni hálfleik. Mark gestanna kom úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

Eftir leikinn er FHL með 21 stig en er 3-4 stigum á eftir Tindastóli og HK sem eru næst fyrir ofan. Liðið spilar gegn toppliði FH í Hafnarfirði á miðvikudag.

Einherji vann ÍH 4-1 í annarri deild kvenna á Vopnafirði á laugardag. Yoana Peralta kom Einherja yfir á 18. mínútu, Oddný Karólína Hafsteinsdóttir bætti við öðru marki þremur mínútum síðar. Hafnafjarðarliðið minnkaði muninn en Oddný Karólína skoraði aftur á 36. mínútu. Kamilla Huld Jónsdóttir skoraði fjórða markið í seinni hálfleik. Einherji tekur á móti Völsungi á fimmtudag.

Í annarri deild karla náði Höttur/Huginn í stig gegn ÍR á heimavelli. Stefán Ómar Magnússon kom Hetti/Huginn yfir á 32. mínútu en gestirnir jöfnuðu í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Meira var ekki skorað í leiknum. KFA tapaði 4-0 fyrir Fjallabyggð. Öll mörkin voru skoruð í seinni hálfleik.

Höttur/Huginn er í 10. sæti með 11 stig, fimm stigum frá Reyni og Magna sem eru þar fyrir neðan í fallsætunum. KFA er með 15 stig, í hnapp með Fjallabyggð og ÍR. Fallslagur verður á Egilsstöðum á miðvikudag þegar Höttur/Huginn tekur á móti Magna en KFA spilar gegn Völsungi á Húsavík.

BN og Máni mættust í fyrsta meistaraflokksleiknum sem spilaður er á Búðagrund árum saman en bæjarhátíðin Franskir dagar fór þar fram um helgina. Freysteinn Bjarnason skoraði þrennu í 5-3 sigri BN.

Spyrnir tapaði 5-2 fyrir Samherjum í Eyjafirði. Viktor Ingi Sigurðsson og Steinþór Hrímnir Aðalsteinsson skoruðu mörk Spyrnis. Þar með má segja að Spyrnir hafi stimplað sig endanlega út úr möguleikanum á að komast í úrslitakeppni deildarinnar en þarf hins vegar að hirða stig til að dragast ekki inn í umspil um sæti í fimmtu deildinni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.