Fótbolti: Fyrstu sigrar KFA og Einherja

Knattspyrnufélag Austfjarða (KFA) vann um helgina sinn fyrsta leik í Íslandsmóti í knattspyrnu þegar félagið vann ÍR 4-3 í annarri deild karla. Þá sótti kvennalið Einherja sinn fyrsta sigur þetta sumarið suður í Hafnarfjörð.

Felix Hammond skoraði sitt fyrsta mark fyrir KFA þegar hann kom liðinu yfir strax á fimmtu mínútu. Gestirnir jöfnuðu um miðjan hálfleikinn en Marteinn Már Sverrisson kom KFA aftur yfir í uppbótartíma.

Abdul Mansary skoraði síðan tvö mörk fyrir KFA, fyrsta á 54 mínútu, það næsta níu mínútum síðar. Gestirnir minnkuðu muninn kortéri fyrir leikslok og skoruðu sitt þriðja mark á níundu mínútu uppbótartíma.

Leikmannahópur KFA var þunnskipaður, aðeins þrír leikmenn á varamannabekknum. Ljóst er að meiðsli taka sinn toll þessa dagana og hópurinn fyrir sumarið ekki stór.

Með sigrinum skaust KFA upp í 8. sæti. Deildin er tvískipt, liðin frá 7. – 11. sæti hnapp og í fallbaráttu. Þar á meðal er Höttur/Huginn sem er í 10. sæti. Liðið tapaði fyrir Haukum í Hafnarfirði eftir að hafa fengið á sig mark strax á þriðju mínútu.

Kvennalið Einherja spilaði einnig á Ásvöllum og náði þar fyrsta sigri sínum í sumar þegar liðið vann Knattspyrnufélagið Ásvelli 1-2. Borghildur Arnarsdóttir skoraði fyrsta markið á 80. mínútu en Kristín Inga Vigfúsdóttir, fyrrum leikmaður Hattar, jafnaði á 87. mínútu. Á fimmtu mínútu uppbótartíma skoraði Viktória Szeles sigurmarkið.

Karlalið Einherja er áfram á sigurbraut í fjórðu deild karla, vann BN á fimmtudagskvöld 5-0. Carlos Javier skoraði eina mark fyrri hálfleiks en í þeim seinni setti Stefan Balev þrennu auk þess sem þeir Dilyan Kolev og Heiðar Aðalbjörnsson skoruðu sitt markið hvor. Einherji er með fullt hús en þremur stigum á eftir eru Hamrarnir. Liðin mætast á miðvikudagskvöld á Akureyri.

Spyrnur vann á sama tíma Mána 1-2 á Höfn. Ármann Davíðsson kom Spyrni yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks og Bjarki Fannar Magnússon skoraði annað markið á 69. mínútu en heimamenn minnkuðu muninn sjö mínútum síðar.

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir vann Hauka 3-1 í Lengjudeild kvenna í gær. Fyrsta markið var sjálfsmark, Bayleigh Chaviers skoraði næsta mark á 34. mínútu og Linli Tu það þriðja á 54. mínútu. Gestirnir minnkuðu muninn á 72. mínútu en léku síðan einum færri síðustu tíu mínúturnar eftir harkalega tæklingu.

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir er með 14 stig úr sjö leikjum í fimmta sæti. Deild er tvískipt, aðeins tvö stig skilja að liðin í 2. – 5. sæti en síðan eru sjö stig niður í næsta lið.

Mark Bayleigh ChaviersMark Linli Tu

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.