Fótbolti: Fyrstu sigrar KFA og Einherja
Knattspyrnufélag Austfjarða (KFA) vann um helgina sinn fyrsta leik í Íslandsmóti í knattspyrnu þegar félagið vann ÍR 4-3 í annarri deild karla. Þá sótti kvennalið Einherja sinn fyrsta sigur þetta sumarið suður í Hafnarfjörð.Felix Hammond skoraði sitt fyrsta mark fyrir KFA þegar hann kom liðinu yfir strax á fimmtu mínútu. Gestirnir jöfnuðu um miðjan hálfleikinn en Marteinn Már Sverrisson kom KFA aftur yfir í uppbótartíma.
Abdul Mansary skoraði síðan tvö mörk fyrir KFA, fyrsta á 54 mínútu, það næsta níu mínútum síðar. Gestirnir minnkuðu muninn kortéri fyrir leikslok og skoruðu sitt þriðja mark á níundu mínútu uppbótartíma.
Leikmannahópur KFA var þunnskipaður, aðeins þrír leikmenn á varamannabekknum. Ljóst er að meiðsli taka sinn toll þessa dagana og hópurinn fyrir sumarið ekki stór.
Með sigrinum skaust KFA upp í 8. sæti. Deildin er tvískipt, liðin frá 7. – 11. sæti hnapp og í fallbaráttu. Þar á meðal er Höttur/Huginn sem er í 10. sæti. Liðið tapaði fyrir Haukum í Hafnarfirði eftir að hafa fengið á sig mark strax á þriðju mínútu.
Kvennalið Einherja spilaði einnig á Ásvöllum og náði þar fyrsta sigri sínum í sumar þegar liðið vann Knattspyrnufélagið Ásvelli 1-2. Borghildur Arnarsdóttir skoraði fyrsta markið á 80. mínútu en Kristín Inga Vigfúsdóttir, fyrrum leikmaður Hattar, jafnaði á 87. mínútu. Á fimmtu mínútu uppbótartíma skoraði Viktória Szeles sigurmarkið.
Karlalið Einherja er áfram á sigurbraut í fjórðu deild karla, vann BN á fimmtudagskvöld 5-0. Carlos Javier skoraði eina mark fyrri hálfleiks en í þeim seinni setti Stefan Balev þrennu auk þess sem þeir Dilyan Kolev og Heiðar Aðalbjörnsson skoruðu sitt markið hvor. Einherji er með fullt hús en þremur stigum á eftir eru Hamrarnir. Liðin mætast á miðvikudagskvöld á Akureyri.
Spyrnur vann á sama tíma Mána 1-2 á Höfn. Ármann Davíðsson kom Spyrni yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks og Bjarki Fannar Magnússon skoraði annað markið á 69. mínútu en heimamenn minnkuðu muninn sjö mínútum síðar.
Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir vann Hauka 3-1 í Lengjudeild kvenna í gær. Fyrsta markið var sjálfsmark, Bayleigh Chaviers skoraði næsta mark á 34. mínútu og Linli Tu það þriðja á 54. mínútu. Gestirnir minnkuðu muninn á 72. mínútu en léku síðan einum færri síðustu tíu mínúturnar eftir harkalega tæklingu.
Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir er með 14 stig úr sjö leikjum í fimmta sæti. Deild er tvískipt, aðeins tvö stig skilja að liðin í 2. – 5. sæti en síðan eru sjö stig niður í næsta lið.
Mark Bayleigh Chaviers
Mark Linli Tu