Orkumálinn 2024

Fótbolti: Góð helgi hjá austfirsku liðunum

KFA og Höttur/Huginn unnu bæði leiki sína í annarri deild karla í knattspyrnu um helgina, Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir náði í þrjú stig í Lengjudeild kvenna og Einherji raðaði inn sjö mörkum í fjórðu deild karla.

KFA vann Reyni Sandgerði 4-0. Marteinn Már Sverrisson skoraði á þriðju mínútu en síðustu fimm mínútur fyrri hálfleiksins bætti hann við marki auk þess sem Abdul Mansaray skoraði tvö mörk.

Höttur/Huginn vann Fjallabyggð á föstudagskvöld. Heimamenn komust yfir snemma eftir um fimm mínútur í seinn hálfleik en Matheus Bettio jafnaði tíu mínútum síðar. Rafael skoraði sigurmarkið á þriðju mínútu uppbótartíma.

Deildin er nú hálfnuð. Höttur/Huginn er í þriðja neðsta sæti, jafnt stigum Víkingi Ólafsvík en með verra markahlutfall. KFA er komið í sjötta sætið með 16 stig.

Einherji og Hamrarnir með forustuna

Í E-riðli fjórðu deildar raðaði Einherji inn örkum gegn Mána. Miguel Angel og Maxim Iurcu skoruðu tvö mörk hvor en þeir Stefán Balev, Jose Cascales og Heiðar Aðalbjörnsson sitt markið hver.

Spyrnir tapaði 3-4 fyrir Hömrunum á Fellavelli. Gestirnir komust yfir á 24. mínútu en Jón Aron Guðmundsson jafnaði á 42. mínútu. Jakob Jóel Þórarinsson kom Spyrni yfir úr víti á 60. mínútu en gestirnir jöfnuðu fimm mínútum síðar. Guðþór Hrafn Smárason kom Spyrni yfir á ný á 67. mínútu en í uppbótartíma stálu gestirnir sigrinum með tveimur mörkum frá Axel Mána Gærdbo Garðarssyni.

BN tapaði fyrir Samherjum á Akureyri, 2-1. Filip Sakaluk skoraði mark BN kortéri fyrir leikslok. Einar Andri Bergmannsson fékk rautt spjald á 50. mínútu.

Um 2/3 eru búnir af riðlakeppninni og er farið að slitna í sundur milli liðanna. Einherji er efstur með 25 stig en Hamrarnir elta með 22 stig. Liðin mætast á Vopnafirði á morgun. Spyrnir er síðan með 13 stig, Samherjar 11, BN 5 og Máni 1.

FHL hangir í toppbaráttunni

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir vann Fjölni 0-3 í Lengjudeild kvenna, en liðin komu saman upp úr annarri deild fyrir sumarið. Hlutskipti þeirra hefur orðið ólíkt, Austfjarðaliðið hefur blandað sér í toppbaráttuna en Grafarvogsliðið er í fallbaráttu. Yolanda Bonnin kom FHL yfir strax á annarri mínútu og Halldóra Birta Sigfúsdóttir skoraði næsta mark á 28. mínútu. Linli Tu skoraði þriðja markið á 75. mínútu. FHL er í fimmta sæti með 18 stig þegar deildin er rúmlega hálfnuð, í humátt á eftir efstu liðunum.

Austfirðingarnir Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir og Telma Ívarsdóttir voru báðar meðal varamanna íslenska kvennalandsliðsins sem gerði 1-1 jafntefli við Belga á Evrópumótinu í gær. Næsti andstæðingur liðsins er Ítalía á fimmtudag. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.