Fótbolti: Höttur/Huginn bjargaði stigum í blálokin

Höttur/Huginn bjargaði stigum gegn Þrótti í leik liðanna í annarri deild karla á laugardag með tveimur mörkum í blálokin. Einherja vantar eitt stig til að tryggja sér öruggt sæti í úrslitakeppni fjórðu deildar karla.

Varamennirnir Heiðar Logi Jónsson og Björgvin Stefán Pétursson gerðust bjargvættir Hattar/Hugins þegar liðið gerði 3-3 jafntefli við Þrótt, sem fyrir leikinn var í öðru sæti deildarinnar meðan Höttur/Huginn hefur í allt sumar verið í botnbáráttu.

Þróttur komst í 2-0 eftir 18 mínútur en 20 mínútum síðar minnkaði Matheus Bettio muninn. Heimaliðið komst í 3-1 á 84. mínútu og virtist þá vera að sigla þremur stigum í örugga höfn.

Heiðar Logi kom inn á þá mínútuna en Björgvin Stefán á 69. mínútu. Sá síðarnefndi, sem jafnframt er aðstoðarþjálfari liðsins, afrekaði að koma inn á með gult spjald á bakinu hafandi verið áminntur tólf mínútur fyrr. Hann varð fyrri til að skora, á 88. mínútu en Heiðar Logi jafnaði á annarri mínútu uppbótartíma.

KFA byrjaði vel í heimaleik sínum gegn Haukum í sömu deild. Abdul Karim skoraði eftir átta mínútur og er núna þriðji markahæstur í deildinni með átta mörk. Forustan entist bara í tvær mínútur og síðan létu Haukar kné fylgja kviði. Voru komnir í 1-3 í hálfleik og bættu síðan við tveimur í viðbót í lokin. KFA er í 6. sæti með 15 stig en Höttur/Huginn í því tíunda með tíu stig.

Tuttugu mörk á viku

Leikmenn Einherja hafa verið á skotskotskónum undanfarna viku. Leikur liðsins gegn Samherjum á Vopnafirði á föstudagskvöld var þriðji leikur þess á sex dögum. Leikirnir voru allir á Vopnafirði og í þeim skoraði Einherji 20 mörk en andstæðingarnir fimm. Þar á meðal var 6-2 sigur á Hömrunum í uppgjöri efstu liða E riðils deildarinnar á þriðjudag.

Á föstudag vann Einherji Samherja 7-2. Staðan í hálfleik gaf ekki fyrirheit um það sem koma skyldi, Zhivko Dinev skoraði eina mark heimamanna í seinni hálfleik og gestirnir jöfnuðu strax í byrjun seinni hálfleiks.

En á um 20 mínútna kafla um miðjan seinni hálfleik skoruðu Stefan Balev og Alejandro Barce tvö mörk hvor, Ruben Menéndez eitt og loks Dilyan Kolev eitt, tveimur mínútum eftir að hann kom inn á.

Einherji er í efsta sæti riðilsins með 31 stig, Hamrarnir í öðru með 25. Bæði lið hafa leikið 11 leiki. Tvö efstu lið riðilsins komast í úrslitakeppni en hvert lið leikur 15 leiki.

Tölfræðilega séð getur Spyrnir, sem er í þriðja sæti riðilsins með 16 stig, náð Einherja en það verður að teljast nær útilokað. Spyrnir vann BN á Eskifjarðarvelli á föstudag, 1-3. Steinþór Hrímnir Aðalsteinsson og Bjarki Sólon Daníelsson skoruðu fyrir Spyrni í fyrri hálfleik áður en fyrirliðinn Jónas Pétur Gunnlaugsson skoraði sitt fyrsta meistaraflokksmark snemma í seinni hálfleik. Sævar Steinn Friðriksson skoraði mark BN.

Hvernig virkar fjórða deildin?

Keppnin í fjórðu deildinni í sumar er nokkuð sérstakt því næsta sumar bætist við ný landsdeild. Deildin nú er leikin í fimm riðlum, efstu liðin fara beint í átta liða úrslit auk besta liðsins úr öðru sæti. Hin liðin í öðru sæti leika heima og heiman um sæti í átta liða úrslitum deildarinnar.

Liðin í átta liða úrslitunum leika síðan upp á tvö laus sæti í þriðju deild. Tvö lið úr þriðju deildinni falla og mynda nýja fjórðu deild ásamt þeim liðum sem komust áfram úr riðlakeppni núverandi deildar. Liðin í þriðja sæti fara í nýja fimmtu deild, ásamt liðunum sem lenda í fjórða og fimmta sæti í riðlum A, B, C, sem eru með átta liðum. Liðin í riðlum D og E, sem eru sex liða, spila um tvö síðustu sætin í nýju fimmtu deildinni. Þeim liðum sem eftir standa býðst sæti í utandeild KSÍ.

Að endingu lék lið Einherja í annarri deild kvenna gegn KH á Hlíðarenda á laugardag. Heimaliðið vann 4-0, skoraði tvö mörk í hvorum hálfleik. Liði hefur 3 stig úr sex leikjum. Hvert lið mun leika 13 leiki áður en deildinni verður skipt í tvennt og liðin í hvorum helmingi leika innbyrðis um endanlega stöðu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar