Fótbolti: Höttur/Huginn bjargaði stigi í uppbótartíma – Myndir
Höttur/Huginn og Knattspyrnufélag Austfjarða gerðu 2-2 jafntefli í Austfjarðaslag á Vilhjálmsvelli í gærkvöldi. Jöfnunarmark Hattar/Hugins kom í uppbótartíma.KFA komst yfir strax á þriðju mínútu með marki Adbul Karim eftir klafs í teignum. Leikurinn þróaðist fljótt út í klassískan neðri deildar leik og treyst á líkamlega krafta frekar en mikla boltafærni.
Hættulegustu færi Hattar/Hugins komu eftir föst leikatriði. Á 15. mínútu féll boltinn fyrir Kristófer Einarsson eftir langt innkast Stefáns Ómars Magnússonar en Danny El-Hage varði gott skot Kristófers. Fimm mínútum síðar jafnaði Hjörvar Sigureirsson en boltinn féll fyrir hann eftir innkast Stefáns Ómars. Öðrum fimm mínútum síðar slapp Rafael í gegnum vörn KFA en skot hans fór í stöngina.
Leikaðferð KFA snérist um að koma boltanum upp á Abdul Karim, sem miðverðir Hattar/Hugins áttu í fullu fangi með eða annað hvort beint upp upp á kantana eða þaðan frá Abdul Karim og aftur inn til hans.
Nokkurn vegin þannig var atburðarásin þegar KFA komst yfir á ný á 26. mínútu. Boltinn gekk frá miðjunni út á hægri kantinn þaðan sem kom föst sending inn í teiginn þar sem Adbul Karim rak tána í boltann. Fjórum mínútum síðar fékk Marteinn Már Sverrisson ágætt skotfæri er boltinn fékk fyrir hann í teignum, en skot hans var beint á markvörð Hattar.
Eftir fjörugan hálftíma róaðist leikurinn nokkuð. Síðasta alvöru færið kom þremur mínútum fyrir leikhlé, enn einu sinni eftir langt innkast Hattar/Hugins en Danny varði skotið vel.
KFA færist aftar
Í seinni hálfleik féll KFA aftar á völlinn, Höttur/Huginn var meira með boltann en náði ekki að skapa sér mörg færi. Þvert á móti voru það skyndisóknir KFA sem voru mest ógnandi. Felix Hammond átti ágæta innkomu í liðið. Á 62. mínútu átti hann frábæran snúning í teignum og bjó sér til gott skotfæri en Hjörvar Daði Arnarsson í marki Hattar/Hugins gerði vel í að verja.
Hann fékk fleiri væri, eftir spil upp kantinn á 74. mínútu skaut hann yfir og á 78. mínútu átti Vice Kendes, fyrirliði Fjarðabyggðar, eina af sínum ágætu rispum upp vinstri kantinn og sendi fyrir á Felix sem átti góðan flugskalla en Hjörvar Daði varði vel.
Besta færi Hattar/Hugins fyrri hluta hálfleiksins átti Rafael á 66. mínútu þegar boltinn féll fyrir hann í teignum en skotið fór vel yfir.
Það var einkum síðustu fimm mínúturnar sem sókn Hattar/Hugins tók að þyngjast og þegar komið var fram á lokamínútu venjulegs leiktíma fór liðið aftur að fá hornspyrnur og innköst sem höfðu skilað því bestu færunum í fyrri hálfleik. Þau skiluðu þó ekki jöfnunarmarkinu.
KFA bíður enn eftir sigri
Þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma elti Abdul Karim sendingu aftur á Hjörvar Daða. Markvörðurinn sendi boltann fram en það kom ekki fyrir að Abdul Karim færi í tæklinguna. Það fór skiljanlega í skapið á Hjörvari daga en á meðan þeir tveir stóðu í störukeppni í vítateig Hattar/Hugins nýtti heimaliðið sér það pláss sem skapaðist til að fara í sókn. Hún endaði með því að boltinn barst til Rafael vinstra megin í teignum. Skotfærið var ágætt og skotið á rammann en beint á Danny. Sá missti boltann hins vegar fremur klaufalega undir sig og Höttur/Huginn bjargaði stigi.
Höttur/Huginn hefur þar með spilað þrjá leiki í röð án taps sem léttir lundina þar. KFA er hins vegar enn án sigurs, hefur þrisvar misst unninn leik niður í jafntefli.
Að endingu má nefna stuðningssveit KFA sem lífgar upp á stemminguna á leikjum fleiri Austfjarðaliða þetta sumarið. Textagerð og kórsöngurinn fá seint tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna en húmorinn er til staðar, þótt til dæmis óskir um innáskiptingar í dómarateymið eins og í gær hefðu sennilega snarlega gert illt verra. Nærvera stuðningsveitarinnar er þó góð áminning um nokkrir léttir æringjar geta gert fótboltaleik miklu skemmtilegri.
Einherji með yfirburði í fjórðu deildinni
Á sama tíma burstaði Einherji Samherja 1-7 fyrir norðan í E riðli fjórðu deildar karla. Alejandro Barce skoraði þrennu, Maxi Iurcu tvö og þeir Miguel Angel og Rubén Menéndez sitt markið hvor. Á miðvikudagskvöld vann Spynir BN á Fellavelli 3-0. Ármann Davíðsson, Bjarki Sólon Davíðsson og Bjarki Fannar Helgason skoruðu mörkin.
Rólegt verður hjá austfirsku knattspyrnuliðunum um helgina. Eini leikurinn í fjórðungnum er í annarri deild kvenna á sunnudag þar sem Einherji tekur á móti ÍA. Í Lengjudeild kvenna leikur Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir gegn Tindastóli á morgun.