Fótbolti: Níu leikir í röð án ósigurs hjá Hetti/Huginn

Lið Hattar/Hugins í annarri deild karla í knattspyrnu hefur nú leikið níu leiki í röð án ósigurs meðan lið Knattspyrnufélags Austfjarða er komið leiðinlega nærri fallsvæðinu.

Höttur/Huginn vann um helgina Völsung á Húsavík, 0-1. Alberto Lopez skoraði markið á 31. mínútu. Liðið varð hins vegar fyrir áfalli í lokin þegar markvörðurinn Hjörvar Daði Arnarsson fékk rautt spjald fyrir að handleika boltann utan teigs.

Sæbjörn Guðlaugsson, sem fyrr í mánuðinum lék sinn 100. leik fyrir félagið, fór í markið síðustu mínútuna.

Höttur/Huginn hefur nú unnið fjóra leiki í röð og er kominn upp í 5. sæti með 27 stig. Það þýðir þó lítið annað en að liðið fer hvorki upp né niður úr deildinni að þessu inni.

Á sama tíma hefur KFA tapað síðustu fjórum leikjum og aðeins unnið einn af síðustu níu. Liðið tapaði um helgina fyrir Þrótti Reykjavík, 1-3, sem um leið tryggði sig upp um deild með Njarðvík. Abdul Karim jafnaði leikinn á 40. mínútu en Þróttur bætti við tveimur mörkum í seinni hálfleik.

Þegar þrjár umferðir eru eftir er KFA það lið sem er næst fyrir ofan falliðin tvö með 18 stig, fjórum frá Reyni Sandgerði. Þessi tvö lið mætast í síðustu umferðinni. Næst mætir KFA neðsta liðinu, Magna á Grenivík en það þarf að vinna alla sína leiki til að forðast fallið. Í millitíðinni kemur Víkingur Ólafsvík austur en því liði hefur heldur ekki vegnað vel í sumar.

Lið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis í Lengjudeild kvenna gerði 2-2 jafntefli við Hauka um helgina. Linli Tu kom FHL yfir á 21. mínútu en heimaliðið jafnaði strax mínútu síðar. Bayleigh Chaviers kom Austfjarðaliðinu aftur yfir á 65. mínútu en Hafnfirðingar jöfnuðu aftur á 82. mínútu.

Þegar tvær umferðir eru eftir er nokkuð ljóst að liðið endar í fimmta sæti, sem er ágætur árangur miðað við að vera nýtt í deildinni.

Lið Einherja í annarri deild kvenna vann Hamar 2-0 á Vopnafirði. Conio Ion skoraði mörkin, sitt í hvorum hálfleik. Deildinni hefur nú verið skipt í tvennt þar sem neðstu fimm liðin annars vegar, efstu sex hins vegar spila sín á milli um endanlega röð. Einherji er í neðri hlutanum, í öðru sæti enn sem komið er, en liðin taka með sér stig þau stig sem þau náðu fyrr í sumar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.