Fótbolti: Tvær að austan á leið á EM
Tveir leikmenn uppaldir hjá austfirskum liðum voru um helgina valdir í íslenska kvennalandsliðið sem tekur þátt í Evrópumeistaramótinu á Englandi í sumar.Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir spilaði upp í gegnum yngri flokka Hattar þótt aldrei kæmi til þess að hún spilaði leik með meistaraflokki. Það gerði hún fyrir Völsung þar sem fjölskylda hennar bjó um tíma. Eftir tvö sumur á Húsavík skipti Áslaug munda yfir til Breiðabliks þaðan sem hún hefur verið síðar. Hún á að baki fimm landsleiki.
Telma Ívarsdóttir er alinn upp í Neskaupstað. Fyrsta meistaraflokksleikinn lék hún 15 ára gömul fyrir Fjarðabyggð/Leikni. Frægt er að hún spilaði fyrstu leikina sem útileikmaður og skoraði meðal annars mark áður en hún færði sig síðsumars 2014 í markið. Hún spilaði með Fjarðabyggð/Leikni tvö sumur áður en hún hélt suður og samdi við Breiðablik. Telma á að baki einn landsleik.
Austfirsku kvennaliðin spiluðu annars bæði í deildakeppninni um helgina. Fjarðabygg/Höttur/Leiknir gerði 2-2 jafntefli við Tindastól í Lengjudeildinni. Yolanda Bonnin kom FHL yfir á tólftu mínútu en heimaliðið jafnaði eftir rúmlega hálftíma leik og komst yfir eftir tæpar tíu mínútur í seinni hálfleik. Ainoa Plaza jafnaði þegar níu mínútur voru eftir. Eftir leikinn er liðið í fimmta sæti með 11 stig.
Einherji tapaði 0-2 heima fyrir ÍA í gær. Mörkin komu hvort í sínum hálfleik. Einherji er enn án stiga.
Telma með Breiðabliki í bikarleik gegn Fjarðabyggð/Hetti/Leikni í maí. Mynd: Chris Colombo