„Frábær lærdómur inn í deildina“

„Auðvitað langaði okkur að gera betur og vissulega byrjaði þetta vel gegn einhverju sterkasta liði Íslands en við lærum af þessu og þetta er frábært veganesti inn í deildina okkar í sumar,“ segir Björgvin Karl Gunnarsson, þjálfari kvennaliðs Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis (FHL.)

Á sunnudaginn var tók FHL á móti Breiðablik í annarri umferð Mjólkurbikarkeppni kvenna en leikurinn fór fram í Fjarðarbyggðarhöllinni á Reyðarfirði. Þar sannarlega um Davíð gegn Golíat að ræða því Kópavogsliðið er með þeim allra bestu í landinu og komust í riðlakeppni Meistaradeildarinnar síðasta haust meðan sameinað lið FHL eru nýliðar í næstefstu kvennadeildinni.

Björgvin Karl segir mikla eftirvæntingu hafa verið hjá stelpunum fyrir leikinn enda ekki á hverjum degi sem slíkur risi komi í heimsókn.

„Við náðum að halda spennustiginu á góðum stað fyrir leikinn. Við vorum með plan A og plan B til að byrja með. Plan A var að ef við byrjuðum með boltann ætti strax að sækja á Blikana og pressa alls staðar á vellinum. Plan B, sem varð svo raunin, var að ef þær byrjuðu með boltann myndum við sitja til baka en nota pressuna aftarlega og beita skyndisóknum. Það gekk ákaflega vel enda settum við mark strax á annarri mínútu en því miður þá misstu stelpurnar aðeins fókus í kjölfarið, þær jöfnuðu fljótt eftir eina mínútu og komust svo yfir rúmum tíu mínútum síðar.“

Björgvin segir að mikill baráttuandi hafi verið í stelpunum í hálfleik enda staðan þá 1-2 gegn firnasterku liði Blikanna. Það reyndist þó of stór biti þegar ár reyndi og þegar dómarinn flautaði lok leiks var staðan 1-4 Kópavogsstelpum í vil. Þriðja markið kom eftir 66 mínútur og það fjórða á 71. mínútu.

„Nei, það var sannarlega engin fýla hjá okkur í leikslok. Það gerðu allir sitt besta en auðvitað er getumunur á þessum tveimur liðum og þær gerðu sér grein fyrir því. Eftir á að hyggja er þetta flottur lærdómur fyrir það sem koma skal í nýrri deild. Nú vitum við hvað þarf að gera til að ná árangri þar sem við getum verið stolt af í lok sumars.“

Björgvin segir nokkur markmið hjá liðinu þetta sumarið. Hið fyrsta, og það eina sem hann gefi upp, sé að liðið haldi sér uppi í annarri deild í sumar. Allt annað en það er mikill plús fyrir lið sem tekið hefur nokkrum breytingum milli ára og hvers leikmenn þurfa margir að ferðast töluverðan spotta á æfingar í viku hverri.

FHL er sem stendur í 5. sæti í Lengjudeild kvenna eftir fjórar umferðir með tvo sigra, eitt jafntefli og eitt tap. Þær gáfu sig allar gegn firnasterku liði Breiðabliks. Mynd GG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.