Freyja Karín: draumurinn er að fara erlendis

Freyja Karín Þorvarðardóttir er ung og efnileg afrekskona í knattspyrnu frá Neskaupstað. Hún er 19 ára og spilar með Þrótti Reykjavík í Bestu deild kvenna. Freyja hefur einnig spilað með unglingalandsliðum og stundar nám við Flensborg í Hafnarfirði.

Freyja byrjaði að spila með Þrótti Reykjavík í byrjun árs 2022 en áður spilaði hún með FHL. Hún var valin í lið ársins í 2. deild kvenna árið 2021 þegar hún spilaði með FHL. Sama ár vann liðið aðra deild kvenna í knattspyrnu. Freyja spilar sem framherji og skoraði þrennu í úrslitaleiknum 2021 sem tryggði liðinu sigurinn. Hún var þá útnefnd íþróttamaður Fjarðabyggðar árið 2021.

Freyja keppti nýverið í Lengjubikar kvenna þar sem Valur tók á móti Þrótti Reykjavík. Hún gerði gæfumuninn í leiknum og skoraði tvennu.

Freyja hefur spilað með U18 og U19 landsliðum Íslands. “Ég spilaði fyrst í Serbíu í milliriðli EM. Síðan hef ég farið á æfingarmót til Finnlands, Svíþjóðar og Portúgal og til í Litháen í undankeppni EM”.

Freyja er á opinni stúdentsbraut á afrekssviði í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði. Hún segir það krefjandi að spila á efsta stigi og vera í námi. “Það getur verið mjög krefjandi á tímum, sérstaklega þegar það er mikið leikjaálag og próf á sama tíma.” Freyja segir erfitt að sinna heimanámi þegar æfingar eru að klárast seint á kvöldin. “Þá er erfitt að fara koma sér í það að læra eftir æfingar.”

“Mér finnst mikilvægt að vera vel skipulögð og það hjálpar mér að nýta skóladaginn vel.”

Freyja segir markmiðið að komast eins langt og hún getur og hafa gaman af ferlinu. “Það hefur alltaf verið draumur minn að fara erlendis og spila fótbolta, það væri mjög gaman að fara erlendis og gera það sem mér finnst skemmtilegast að gera,” segir Freyja Karín.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar