Fyrrum landsliðsmaður Kamerún til Hattar/Hugins

Höttur/Huginn hefur samið við Dani Ndi um að spila með félaginu í annarri deild karla í knattspyrnu í sumar. Ndi á að baki landsleiki með Kamerún.

„Þetta er framliggjandi miðjumaður sem getur spilað á báðum köntum eða á miðjunni. Hann er snöggur og leikinn með reynslu úr efstu og næstefstu deild á Spáni. Við væntum þess að hann styrki sóknarleikinn hjá okkur gríðarlega og verði lykilmaður,“ segir Brynjar Árnason, þjálfari Hattar/Hugins.

Ndi er fæddur árið 1995. Fyrsta evrópska félagið sem hann spilaði með var Sporting Gijon á Spáni. Hann fór með liðinu upp úr B-deild tímabilið 2014-15 og lék 21 leik í La Liga, efstu deildinni næstu tvö tímabil á eftir og skoraði mark.

Eftir það fór hann til Mallorca hefur síðan mest spilað í neðri deildunum á Spáni, utan eins tímabils hjá Istra í Króatíu. Ndi á að baki sjö landsleiki með Kamerún, mest vináttulandsleiki en einnig leiki í forkeppni heimsmeistarakeppni, Afríkukeppni og lokakeppni Afríkukeppni árin 2015-16.

Dani kemur til landsins í mars. Hann kemur í gegnum umboðsskrifstofuna Áfram Football sem Nacho Poveda, fyrrum leikmaður Hattar, rekur. „Nacho benti okkur á hann og við þurftum ekki að hugsa okkur lengi um,“ segir Brynjar.

Mynd: RCD Mallorca

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.