Fyrrum landsliðsmaður Kamerún til Hattar/Hugins

Höttur/Huginn hefur samið við Dani Ndi um að spila með félaginu í annarri deild karla í knattspyrnu í sumar. Ndi á að baki landsleiki með Kamerún.

„Þetta er framliggjandi miðjumaður sem getur spilað á báðum köntum eða á miðjunni. Hann er snöggur og leikinn með reynslu úr efstu og næstefstu deild á Spáni. Við væntum þess að hann styrki sóknarleikinn hjá okkur gríðarlega og verði lykilmaður,“ segir Brynjar Árnason, þjálfari Hattar/Hugins.

Ndi er fæddur árið 1995. Fyrsta evrópska félagið sem hann spilaði með var Sporting Gijon á Spáni. Hann fór með liðinu upp úr B-deild tímabilið 2014-15 og lék 21 leik í La Liga, efstu deildinni næstu tvö tímabil á eftir og skoraði mark.

Eftir það fór hann til Mallorca hefur síðan mest spilað í neðri deildunum á Spáni, utan eins tímabils hjá Istra í Króatíu. Ndi á að baki sjö landsleiki með Kamerún, mest vináttulandsleiki en einnig leiki í forkeppni heimsmeistarakeppni, Afríkukeppni og lokakeppni Afríkukeppni árin 2015-16.

Dani kemur til landsins í mars. Hann kemur í gegnum umboðsskrifstofuna Áfram Football sem Nacho Poveda, fyrrum leikmaður Hattar, rekur. „Nacho benti okkur á hann og við þurftum ekki að hugsa okkur lengi um,“ segir Brynjar.

Mynd: RCD Mallorca

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar