Helgin: Íslandsmótið í knattspyrnu byrjar

Þrjú austfirsk lið hefja leik sinn í Íslandsmótinu í knattspyrnu um helgina. Ýmislegt fleira er þó í boði eystra, svo sem teiti á vegum framboða og frásagnir af víkingum.

Keppni hefst í annarri deild karla og fyrstu deild kvenna á morgun. Enn er þó vika í E riðil fjórðu deildar karla og aðra deild kvenna.

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir hefur leik í fyrstu deild kvenna klukkan 13:00 á morgun þegar Fjölnir kemur í Fjarðabyggðarhöllina. Liðin fóru saman upp úr annarri deild í kvenna í fyrra þar sem austanliðið vann í úrslitaleik. Liðið fékk í vikunni leikheimild fyrir nýjan leikmann. Hún heitir Yolanda Bonnin, er fædd á Spáni en spilaði síðast á Kýpur.

Í annarri deild karla tekur Knattspyrnufélag Austfjarða (KFA) á móti Fjallabyggð í Fjarðabyggðarhöllinni klukkan 16:00. Þar bættist Inigo Albizuri í hópinn í vikunn en hann lék með Leikni í fyrra.

Höttur/Huginn spilar á útivelli gegn ÍR á morgun. Liðið fékk í vikunni Portúgalann Rafael Alexandre sem spilaði með Þrótti Reykjavík sumarið 2019 og skoraði 12 mörk í næstefstu deild. Hann spilaði síðast frá Ísrael. Eins gekk Hjörvar Sigurgeirsson til liðs við félagið. Hann er uppalinn hjá KA en spilaði með Magna í fyrra.

Náttúrustofa Austurlands og Ferðafélag Fjarðamanna standa fyrir árlegri fuglatalningu og fuglaskoðun á leirum Reyðarfjarðar og Norðfjarðar í fyrramálið. Mæting er klukkan 11:30 við Leiruna í Norðfirði en klukkutíma síðar við Andapollinn á Reyðarfirði.

Á sunnudag klukkan 16:00 verða þeir Dr. William R. Short og Reynir A. Óskarsson með fyrirlestur um rannsóknir sínar á bardagaaðferðum og vopnum víkinga í Safnahúsinu á Egilsstöðum. Þeir tilheyra hópi sem rannsakað hafa víkingana með sérstæðum aðferðum sem stundum hafa skilað óvæntum og athygliverðum niðurstöðum.

Þá er ekki úr vegi að minnast á fjölda viðburða á vegum þeirra stjórnmálaafla sem bjóða fram til sveitarstjórna á Austurlandi. Viðburðirnir eru þó ekki hápólitískir heldur má nefna hluti eins og konukvöld, barsvar, bingó, fræðslufundi og fleira.

Mynd: Akureyri.net/Skapti Hallgrímsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.