Helgin: Íslandsmótið í knattspyrnu byrjar
Þrjú austfirsk lið hefja leik sinn í Íslandsmótinu í knattspyrnu um helgina. Ýmislegt fleira er þó í boði eystra, svo sem teiti á vegum framboða og frásagnir af víkingum.Keppni hefst í annarri deild karla og fyrstu deild kvenna á morgun. Enn er þó vika í E riðil fjórðu deildar karla og aðra deild kvenna.
Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir hefur leik í fyrstu deild kvenna klukkan 13:00 á morgun þegar Fjölnir kemur í Fjarðabyggðarhöllina. Liðin fóru saman upp úr annarri deild í kvenna í fyrra þar sem austanliðið vann í úrslitaleik. Liðið fékk í vikunni leikheimild fyrir nýjan leikmann. Hún heitir Yolanda Bonnin, er fædd á Spáni en spilaði síðast á Kýpur.
Í annarri deild karla tekur Knattspyrnufélag Austfjarða (KFA) á móti Fjallabyggð í Fjarðabyggðarhöllinni klukkan 16:00. Þar bættist Inigo Albizuri í hópinn í vikunn en hann lék með Leikni í fyrra.
Höttur/Huginn spilar á útivelli gegn ÍR á morgun. Liðið fékk í vikunni Portúgalann Rafael Alexandre sem spilaði með Þrótti Reykjavík sumarið 2019 og skoraði 12 mörk í næstefstu deild. Hann spilaði síðast frá Ísrael. Eins gekk Hjörvar Sigurgeirsson til liðs við félagið. Hann er uppalinn hjá KA en spilaði með Magna í fyrra.
Náttúrustofa Austurlands og Ferðafélag Fjarðamanna standa fyrir árlegri fuglatalningu og fuglaskoðun á leirum Reyðarfjarðar og Norðfjarðar í fyrramálið. Mæting er klukkan 11:30 við Leiruna í Norðfirði en klukkutíma síðar við Andapollinn á Reyðarfirði.
Á sunnudag klukkan 16:00 verða þeir Dr. William R. Short og Reynir A. Óskarsson með fyrirlestur um rannsóknir sínar á bardagaaðferðum og vopnum víkinga í Safnahúsinu á Egilsstöðum. Þeir tilheyra hópi sem rannsakað hafa víkingana með sérstæðum aðferðum sem stundum hafa skilað óvæntum og athygliverðum niðurstöðum.
Þá er ekki úr vegi að minnast á fjölda viðburða á vegum þeirra stjórnmálaafla sem bjóða fram til sveitarstjórna á Austurlandi. Viðburðirnir eru þó ekki hápólitískir heldur má nefna hluti eins og konukvöld, barsvar, bingó, fræðslufundi og fleira.
Mynd: Akureyri.net/Skapti Hallgrímsson