HM spilað á lítið stærra svæði en Múlaþing og Fjarðabyggð þekja

Katar, sem heldur heimsmeistarakeppni karla í knattspyrnu, er að flatarmáli aðeins örlítið minna en það landssvæði sem Múlaþing og Fjarðabyggð ná sameiginlega yfir.

Katar er 11.581 ferkílómetrar að stærð, samanborið við Fjarðabyggð og Múlaþing samanlagt sem eru 11.835 ferkílómetrar.

Annar samanburður í landfræðinni er Fljótsdalshérað allt, frá Vatnajökli til Héraðsflóa. Það er 10.432 ferkílómetrar. Austfirsku sveitarfélögin fjögur, Vopnafjarðarhreppur, Múlaþing, Fjarðabyggð og Fljótsdalshreppur ná samanlagt yfir rúmlega 15 þúsund ferkílómetra.

Vegalengdirnar í Katar eru heldur ekki langar. Mestar fjarlægð milli tveggja leikvanga er 66 km, milli Al Bayt sem er norður af höfuðborginni Doha og An Janoub sem er sunnan við hana. Til samanburðar eru 69 km milli Egilsstaða og Norðfjarðar. Frá Doha að Al Bayt eru 56, jafn langt og milli Norðfjarðar og Fáskrúðsfjarðar.

Samanburðurinn breytist þó verulega þegar horft er til fólksfjöldans. Innfæddir Katarar eru um 313.000 en síðan bætast við erlendir ríkisborgarar sem koma heildarfólksfjöldanum upp í um 2,9 milljónir. Talið er að 2,1 milljón séu erlent farandverkafólk.

Íbúafjöldi Múlaþings og Fjarðabyggðar er rétt ríflega 10.000 manns, um 5.000 í hvoru. Minnsti völlurinn á HM rúmar 44.400 en sá stærsti, þar sem leikið verður til úrslita, tvöfalt fleiri.

Blóðvellirnir

En þær eru fleiri tölurnar og ekki jafn fallegar. Samkvæmt tölum frá Alþýðusambandi Íslands hafa 6.500 manns látist við störf sem tengjast undirbúningi mótsins. Raunverulegar tölur hafa ekki fengist vegna tregðu stjórnvalda í einræðisríkinu.

Í ályktun miðstjórnar sambandsins segir að vonast sé til að sú bylgja vandlætingar sem nú fer um heimsbyggðina í aðdraganda mótsins í Katar verði til þess að siðvæðing eigi sér stað á vettvangi knattspyrnunnar og að landssambönd samþykki aldrei aftur að mótið verði haldið í ríki þar sem mannréttindi eru fótum troðin og blóði fólks úthellt án minnstu iðrunar. Því þurfi einnig að halda á lofti gagnvart íslenskum stjórnvöldum og forustufólki í íþróttum hérlendis.

„Um leið ættu blóðvellirnir í Katar að vera okkur öllum áminning um að ekki er gefið að almenningur njóti þeirra réttinda og verndar sem Íslendingar hafa borið gæfu til að sameinast um. Í því samhengi skal minnt á mannréttindabaráttu á Vesturlöndum og varðstöðu samtaka, sambanda og félaga um þau gildi. Verkalýðshreyfingin hefur ásamt öðrum staðið þar í broddi fylkingar til að tryggja kjörin, auka réttinn og verja mannlega reisn. Reynslan kennir að baráttu gegn ofríki fjármagns og tilraunum valdastétta til að grafa undan réttindum launafólks lýkur aldrei,“ segir þar.

Mynd: TheTrueSize.com

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.