Hrafnkell Freysgoði Launaflsbikarmeistari á afmælisdeginum eftir æsilegan úrslitaleik

Ungmennafélagið Hrafnkell Freysgoði á Breiðdalsvík sigraði í gærkvöldi í bikarkeppni UÍA og Launafls eftir æsilegan úrslitaleik gegn Boltafélagi Norðfjarðar. Vítaspyrnukeppni þurfti til að knýja fram úrslitin.

 

launaflsbikar_urslit_hrafnkell_bn_0101_web.jpgNorðfirðingar urðu á undan til að skora en það gerði Elvar Ingi Þorsteinsson á fjórðu mínútu. Steinar Smári Hilmarsson jafnaði á tólfu mínútu og Dobrycky Norbert kom Breiðdælingum yfir á 27. mínútu. Sú forusta entist stutt því Skúli Skúlason jafnaði mínútu síðar.

Baldur Jónsson kom Breiðdælingum yfir á ný eftir góða sókn á 72. mínútu. Þeir fengu síðan tækifæri til að auka forustuna enn frekar en Ívar Sæmundsson, markvörður BN, varði vítaspyrnu Snjólfs Gunnarssonar. Hafþór Sigurðsson jafnaði fyrir BN á 76. mínútu.

Í vítaspyrnukeppnnini skutu Hrafnkelsmenn á undan og klúðruðu annarri spyrnu sinni. Norðfirðingar gátu tryggt sér sigurinn en Natan Leó Arnarsson, markvörður Hrafnkels, varði þeirra seinustu spyrnu.

Hrafnkelsmenn töldu sig hafa tryggt sér sigurinn þegar fyrri spyrna BN í bráðabana fór í slá og niður á jörðu og hlupu inn á völlinn og fögnuðu. Þeim var samt snúið aftur út á hliðarlínu því boltinn hafði farið inn fyrir línuna.

Þeir þurftu samt ekki að bíða lengi eftir að fagna á ný því Natan Leó varði sjöundu spyrnu BN.

Dobrycky Norbert, leikmaður Hrafnkels, fékk verðlaun sem markahæsti maður keppninnar en hann skoraði 20 mörk í átta leikjum. Hann var einnig valinn besti leikmaður keppninnar af forráðamönnum liðanna.

Sjö lið af öllu Austurlandi sendu lið til keppni og tefldu samtals fram 260 leikmönnum. Ungmennafélagið Hrafnkell Freysgoði fagnaði 73ja ára afmæli sínu í gær. Þetta er í fjórða sinn í röð sem BN verður í öðru sæti keppninnar. Snjólfur Gunnarsson, leikmaður Hrafnkels, vann keppnina með Spyrni í fyrra og UMFB árið 2008.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar