Höttur hamraði Hamrana: Veit ekki hvað ég hef skorað mörg mörk úr aukaspyrnum
Höttur á enn fjarlæga von um að komast upp í 1. deild karla í knattspyrnu eftir leiki helgarinnar þegar liðið burstaði Hamar 5-0 á Egilsstöðum. Fyrirliðinn Stefán Þór Eyjólfsson skoraði þrennu, þar af tvö mörk beint úr aukaspyrnum.

„Þetta snýst um sjálfstraust, að sjá boltann inni áður en maður hleypur að honum. Þegar maður hefur skorað einu sinni blossar það upp.“
Elvar Þór Ægisson skoraði hin mörkin tvö. Höttur hafði ekki áður unnið Hamar í 2. deild. „Hamarsliðið er gott en á það til að brotna skori andstæðingarnir á undan. Við lögðum upp með það og keyra svo yfir þá og það gekk upp.“
Höttur er í þriðja sæti deildarinnar, sex stigum á eftir BÍ/Bolungarvík sem er í öðru sæti. Liðin mætast á Ísafirði á laugardag.