Ingvi: Einherji á ekkert heima í neðstu deild

Ingvi Ingólfsson, þjálfari Einherja, var að vonum ánægður eftir að liðið tryggði sér sæti í þriðju deild karla á ný eftir árs fjarveru með 10-3 samanlögðum sigri á Ými í undanúrslitum fjórðu deildar í gærkvöldi.

„Tilfinningin er æðisleg. Þetta er búið að vera virkilega flott sumar og við höfum beðið eftir þessu frá fyrsta leik. Þess vegna er frábært að klára þetta hér á heimavelli,“ sagði Ingvi eftir 5-2 sigur Einherja á Ými í seinni leiknum á Vopnafirði í gærkvöldi.

Það tók þó Einherja tíma að ná tökum á leiknum, í fyrri hálfleik réðu gestirnir miðjunni. „Það fór aðeins um mann í hálfleik, hvernig við leystum ýmsar stöður og vorum í basli á miðjunni. Við settumst niður í leikhléi og ræddum málin af yfirvegun.

Við vissum að þeir kæmu hingað hafandi engu að tapa en þyrfti að skora fjögur mörk til að komast í framlengingu. Við höfðum alltaf trú á að við myndum skora. Ýmir er flott fótboltalið en að mínu viti var það reynslan sem skipti máli í lokin, þeir sáu líka að möguleikinn var að fjara út og þá keyrðum við á þá.“

Einherji fór í gegnum mótið án þess að tapa leik, gerði tvö jafntefli þótt annað þeirra breyttist í sigur síðar vegna þess að mótherjarnir tefldu fram ólöglegum leikmanni.

„Inn á milli í sumar voru hæðir og lægðir. Vendipunkturinn var jafntefli við Hamrana á útivelli. Það mættum við ekki til leiks og fengum jafntefli í andlitið. Ég var ánægður með strákana því eftir þann leik sögðu þeir að ef þeir mættu ekki til leiks þá gengi ekki neitt. Ég þurfti ekki að segja orð og eftir það mættum við í alla leiki.“

Einherji féll í fyrra eftir 0-0 jafntefli gegn Víði á Vopnafirði í lokaumferðinni. Vopnfirðingar réðu þar ferðinni og fengu nóg af færum en tókst ómögulega að koma boltanum í netið. Heimamenn tala um að erfitt hafi verið að rífa sig upp eftir það áfall en það tókst, Ingvi var ráðinn og byrjað að safna í lið.

„Öllum í kringum liðið fannst Einherji ekki eiga heima í neðstu deild og við vildum koma liðinu strax upp eftir brösótt gengi í fyrra.

Þetta gefur gengið frábærlega eftir að við smöluðum loks í lið. Hér voru 5-6 á æfingum í vetur, þeir lyftu og spiluðu innanhússbolta. Síðan fengum við risasendingu frá Spáni og aðra frá Moldóvu. Eftir það small allt.“

Einherjaliðið er fjölþjóðlegt, skipað Búlgörum, Moldóvum, Spánverjum og Íslendingum. „Sem betur fer tala langflestir mjög góða ensku. Einn Spánverjanna talaði enga ensku þegar hann kom til okkar í vor en hann fór á námskeið og hefur í sumar verið að læra ensku til að geta talað við okkur. Þeir eru því allir af vilja gerðir til að falla inn í samfélagið.“

Aðspurður kveðst Ingvi lítið vera farinn að hugleiða næsta tímabil. „Ég skipti mér sem minnst af samningum leikmanna. Minn samningur rennur út eftir tímabilið. Eftir úrslitaleikinn um deildarmeistaratitilinn á laugardag fer ég í frí til Bandaríkjanna. Eftir það sest ég niður með stjórn Einherja og við förum yfir það sem er framundan.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.