Íþróttir: Þróttur mætir KA í úrslitakeppninni

Um helgina skýrðist endanlega hvernig úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í blaki verður háttað hjá Þrótti Neskaupstað. Karlalið Hattar bíður hins vegar enn þess að vita mótherja sinn í úrslitum fyrstu deildarinnar í körfuknattleik. Bikarkeppni karla í knattspyrnu hófst um helgina.

Í byrjun mánaðarins varð ljóst að Þróttur kæmist í úrslitakeppnina en óljósara var hvort liðið yrði í þriðja eða fjórða sæti. Það réðist í síðustu viku þegar Álftanes vann nokkuð óvæntan útisigur á Afturelding og ýtti Þrótti úr þriðja sætinu.

Tveimur stigum munaði á liðunum að lokum, Þróttur varð í fjórða sæti með 28 stig en Álftanes var með tveimur stigum meira.

Þetta þýðir að Þróttur mætir KA í undanúrslitum Íslandsmótsins. Fyrsti leikurinn verður á Akureyri á fimmtudagskvöld en síðan mætast liðin ekki aftur fyrr en þriðjudaginn í næstu viku í Neskaupstað. Oddaleikurinn verður tveimur dögum síðar á Akureyri, ef þarf, því það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst í úrslit. Í hinum undanúrslitunum mætast Álftanes og Afturelding.

Höttur komst á fimmtudag í úrslitaeinvígi fyrstu deildar karla í körfuknattleik. Óljóst er hvort liðið mætir þar Sindra eða Álftanesi en síðarnefnda liðið knúði fram oddaleik með 20 stiga sigri á heimavelli í gær. Sá verður á Höfn á miðvikudag.

Fyrsta umferð Mjólkurbikarkeppni karla í knattspyrnu var leikin um helgina. Einherji lagði Boltafélag Norðfjarðar á útivelli 0-2. Ruben Riesco skoraði fyrra markið á 84. mínútu og Georgi Koaraneychev það seinna á 90. mínútu. Sindri vann Spyrnu 6-0 á Höfn á laugardag.

Í annarri umferð tekur Höttur/Huginn á móti Einherja fimmtudaginn 21. apríl. Tveimur dögum síðar tekur Sindri á móti Knattspyrnufélagi Austfjarða.

Mynd: Sigga Þrúða


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.