Jóhanna Lilja valin í landsliðið á skíðum

Jóhanna Lilja Jónsdóttir, skíðakona frá Egilsstöðum, var í gær valin í landsliðið í alpagreinum á skíðum fyrir næsta vetur.

Jóhanna Lilja er í B-landsliðið ásamt fimm öðrum en fjórir einstaklingar eru í A-landsliðinu. Framundan hjá landsliðunum er keppni á heimsmeistaramótum auk fjölmargra heimsbikarmóta. Í tilkynningu Skíðasambandsins segir að landsliðið í alpagreinum sé fullskipað, sem sé gleðiefni því það sýni styrk og breidd komandi kynslóðar.

Jóhanna Lilja er fædd árið 2004 og keppir undir merkjum Skíðafélagsins í Stafdal þótt hún æfi og stundi nám á Akureyri á veturna.

Síðastliðinn vetur gekk vel hjá Jóhönnu Lilju. Hún varð til að mynda í þriðja sæti í heildina í svigi á Skíðamóti Íslands þar sem hún vann bæði svig og stórsvig í sínum aldursflokki. Þá keppti hún á mótum í Austurríki, Belgíu, Ítalíu, Slóveníu, Noregi og Finnlandi.

Tímabilinu lauk um páskana á móti á hinu fræga skíðasvæði Val d‘Isere í Frakklandi. Besti árangur Jóhönnu á því móti var 12. sætið í hennar aldursflokki.

Jóhanna Lilja, lengst til hægri, á palli á Skíðamóti Íslands í vetur. Mynd: Skíðasamband Íslands.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar