Kínversk landsliðskona til Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis
Linli Tu, sem á að baki leiki og verðlaun með yngri landsliðum Kína, samdi í byrjun mánaðarins við Fjarðabyggð/Hetti/Leikni sem leikur í fyrstu deild kvenna í knattspyrnu í sumar.„Guð hefur opnað mér dyr og það færir mér skrefi nær draumi mínum um knattspyrnuferil og prestsvígslu,“ segir hin 23ja ára gamla Linli Tu í samtali við heimasíðu Taylor háskóla í Bandaríkjunum, þar sem hún hefur leikið síðustu fjögur ár.
Talsverður áhugi virðist vera á flutningi Linli Tu, sem ýmis er skrifuð þannig á vestræna vísu eða Tu Linli í heimalandinu, til Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis en talað er um fyrsta atvinnumannasamning hennar. Í einu viðtali greinir hún frá því að hún hafi verið farin að huga að henni þegar tækifærið til að spila á Íslandi hafi óvænt boðist.
Það var í kjölfar æfingabúða á vegum umboðsskrifstofunnar Pro Soccer Consulting (PSC) í Orlando í janúar. Þangað mætti Björgvin Karl Gunnarsson, þjálfari Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis og bæði fylgdist með Linli á æfingum og stýrði henni á nokkrum. Á heimasíðu PSC er haft eftir Linli að Björgvin Karl hafi bæði verið hvetjandi og veitt skýra tilsögn þannig hún hafi fundist hann hafa trú á sér.
Þar segist hún spennt fyrir sumrinu á Íslandi, að spila í sterkari deild og kynnast knattspyrnumenningunni. Sjálf vonist hún til að liðið, sem fór upp um deild síðasta haust, blandi sér í toppbaráttuna og hún sjálf skori að lágmarki þrjú mörk og leggi upp önnur þrjú.
Eitt þeirra er mögulega komið því Linli skoraði í 3-0 sigri Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis á Augnabliki í lokaleik B-deildar Lengjubikars kvenna um síðustu helgi.
Ólympíugull
Heimildir eru misvísandi um fjölda leikja Linli með kínversku landsliðunum. Á heimasíðu Taylor segir að hún eigi að baki fjóra landsleiki með kínverska kvennalandsliðinu en í umfjöllun PSC er aðeins talað um að hún sé fyrrverandi leikmaður U-21 árs landsliðsins.
Ljóst er hins vegar að Linli á að baki fjölda landsleikja með kínversku yngri landsliðunum og verðlaun, meðal annars gull frá Ólympíuleikum æskunnar árið 2014. Í umfjöllun kínverskrar fréttasíðu um feril Linli, í tilefni Íslandsfararinnar, segir að hún sé sú fyrsta úr sínu héraði, Jingdezhen, til að æfa með kvennalandsliði í knattspyrnu og því sé hún heimabyggðinni til sóma. Þar kemur einnig fram að Linli hafi á yngri árum æft dans áður en hún snéri sér að fótboltanum.
Frammistaða hennar með unglingalandsliðunum vakti athygli á henni og fór hún til Bandaríkjanna í háskóla í kristinn háskóla enda er hún að ræða til prests. Á Instagram-síðu sinni síðasta sunnudag birti Linli mynd af sér við Seyðisfjarðarkirkju og skrifar að hún hafi leitað að íslenskri kirkju til að sækja á sunnudegi en komið að luktum dyrum.
Linli hefur leikið við góðan orðstír með Taylor frá árinu 2018, spilað fjölda leikja og bæði lagt upp og skorað mörk sem leitt hefur til þess að hún fékk einstaklingsverðlaun fyrir frammistöðu sína.
Mynd: PSC