Knattspyrna: Fjórða deildin hefst í kvöld

Keppni í E riðli fjórðu deildar karla í knattspyrnu hefst í kvöld með Austfjarðaslag Boltafélags Norðfjarðar og Einherja. Atgangur hefur verið í félagaskiptum leikmanna síðustu dagana en frestur til að skipta um lið rann út á miðnætti.

Þrjú austfirsk lið eru í riðlinum, auk Mána frá Hornafirði og Hamranna og Samherja úr Eyjafirði. BN tekur á móti Einherja á Norðfjarðarvelli klukkan sjö í kvöld en Spyrnir mætir Mána á Fellavelli annað kvöld.

Frestur til að skipta um lið rann út á miðnætti og hefur Knattspyrnusamband Íslands í dag verið að staðfesta félagaskipti með útgáfu leikheimilda. Fjölmargir leikmenn skiptu í BN, Spyrni og Mána síðustu daga enda er um að ræða eins konar varalið Fjarðabyggðar, Hattar/Hugins og Sindra.

Mest eru þetta yngri leikmenn en þó má sjá eldri nöfn eins og Þórarinn Mána Borgþórsson, sem fór í Spyrni og Sævar Örn Harðarson með BN. Þá fékk Spyrni til sín 24 ára gamlan Ungverja að nafni Lóránt Lépés.

Einherji hefur einnig styrkt sig síðustu daga. Til liðsins kom í vikunni Maxim Iurcu, 29 ára sóknarmaður frá Moldavíu. Hann á að baki nokkra leiki með yngri landsliðum þar auk þess sem hann varð bæði lands- og bikarmeistari meðan hann lék með Sheriff Tiraspol.

Sóknarmaður frá Flat Earth FC

Knattspyrnufélag Austfjarða styrkti sig einnig með tveimur nýjum leikmönnum. Annar þeirra, Adams Ahmed, á athygliverðan feril að baki. Ahmed er 29 ára varnarmaður sem leikið hefur yngri landsleiki fyrir Gana, eina öflugustu knattspyrnuþjóð Afríku. Hann hefur einnig spilað í afrísku meistaradeildinni en kemur hingað frá Spáni þar sem hann lék með liði með hið athygliverða nafn, Flat Earth FC.

Félagið, sem staðsett er í Madríd, hefur vakið alþjóðaathygli fyrir hugmyndafræðina sem það var stofnað til að breiða út sem er, eins og nafnið ber með sér, að jörðin sé flöt.

KFA hefði líka verið fengur í því að yngri bróðir Ahmed, Kasim Adams hefði fylgt honum. Hann er hins vegar upptekinn hjá Hoffenheim í Þýskalandi sem spilar í úrvalsdeild. Kasim þekkir til Íslands en hann skoraði fyrra mark Ganverja og sitt eina landsliðsmark í síðasta æfingaleik Íslands hérlendis fyrir HM í Rússlandi árið 2018.

Hinn leikmaðurinn er Abdul Mansaray, 26 ára sóknarmaður frá Bandaríkjunum. Sá spilaði síðast með Ontario Fury en var hjá Ytterhogdals í Svíþjóð í fyrra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.