Knattspyrna: Fjórða deildin hefst í kvöld
Keppni í E riðli fjórðu deildar karla í knattspyrnu hefst í kvöld með Austfjarðaslag Boltafélags Norðfjarðar og Einherja. Atgangur hefur verið í félagaskiptum leikmanna síðustu dagana en frestur til að skipta um lið rann út á miðnætti.Þrjú austfirsk lið eru í riðlinum, auk Mána frá Hornafirði og Hamranna og Samherja úr Eyjafirði. BN tekur á móti Einherja á Norðfjarðarvelli klukkan sjö í kvöld en Spyrnir mætir Mána á Fellavelli annað kvöld.
Frestur til að skipta um lið rann út á miðnætti og hefur Knattspyrnusamband Íslands í dag verið að staðfesta félagaskipti með útgáfu leikheimilda. Fjölmargir leikmenn skiptu í BN, Spyrni og Mána síðustu daga enda er um að ræða eins konar varalið Fjarðabyggðar, Hattar/Hugins og Sindra.
Mest eru þetta yngri leikmenn en þó má sjá eldri nöfn eins og Þórarinn Mána Borgþórsson, sem fór í Spyrni og Sævar Örn Harðarson með BN. Þá fékk Spyrni til sín 24 ára gamlan Ungverja að nafni Lóránt Lépés.
Einherji hefur einnig styrkt sig síðustu daga. Til liðsins kom í vikunni Maxim Iurcu, 29 ára sóknarmaður frá Moldavíu. Hann á að baki nokkra leiki með yngri landsliðum þar auk þess sem hann varð bæði lands- og bikarmeistari meðan hann lék með Sheriff Tiraspol.
Sóknarmaður frá Flat Earth FC
Knattspyrnufélag Austfjarða styrkti sig einnig með tveimur nýjum leikmönnum. Annar þeirra, Adams Ahmed, á athygliverðan feril að baki. Ahmed er 29 ára varnarmaður sem leikið hefur yngri landsleiki fyrir Gana, eina öflugustu knattspyrnuþjóð Afríku. Hann hefur einnig spilað í afrísku meistaradeildinni en kemur hingað frá Spáni þar sem hann lék með liði með hið athygliverða nafn, Flat Earth FC.
Félagið, sem staðsett er í Madríd, hefur vakið alþjóðaathygli fyrir hugmyndafræðina sem það var stofnað til að breiða út sem er, eins og nafnið ber með sér, að jörðin sé flöt.
KFA hefði líka verið fengur í því að yngri bróðir Ahmed, Kasim Adams hefði fylgt honum. Hann er hins vegar upptekinn hjá Hoffenheim í Þýskalandi sem spilar í úrvalsdeild. Kasim þekkir til Íslands en hann skoraði fyrra mark Ganverja og sitt eina landsliðsmark í síðasta æfingaleik Íslands hérlendis fyrir HM í Rússlandi árið 2018.
Hinn leikmaðurinn er Abdul Mansaray, 26 ára sóknarmaður frá Bandaríkjunum. Sá spilaði síðast með Ontario Fury en var hjá Ytterhogdals í Svíþjóð í fyrra.