Knattspyrna: Fyrsti sigur Hattar/Hugins

Höttur/Huginn vann sinn fyrsta leik í annarri deild karla í sumar. Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir vann á ný og Einherji er að taka forustuna í fjórðu deild.

Höttur/Huginn vann Reyni í Sandgerði á laugardag í miklum markaleik, 3-4. Stefán Ómar Magnússon kom austanliðinu yfir strax á fyrstu mínútu en heimamenn jöfnuðu mínútu síðar og komust yfir á sjöundu mínútu.

Það mark skoraði Sæþór Ívan Viðarsson, sonur Viðars Jónssonar fyrrverandi þjálfara Hattar/Hugins og fyrrum leikmaður Leiknis Fáskrúðsfirði. Rafael jafnaði á níundu mínútu og þar með komin fjögur mörk áður en tíu mínútur voru liðnar.

Sandgerðismenn skoruðu þriðja mark sitt á 30. mínútu og voru yfir í hálfleik. Rafael jafnaði aftur fyrir Hött á 47. mínútu en Kristján Jakob Ásgrímsson skoraði sigurmarkið sex mínútum fyrir leikslok.

Í sömu deild tapaði KFA fyrir efsta liðinu Njarðvík. KFA komst yfir á 11. mínútu með marki Mykolas Krasnovskis en Suðurnesjaliðið jafnaði fimm mínútum síðar. KFA komst aftur yfir á annarri mínútu seinni hálfleiks þegar Marteinn Már Sverrisson skoraði úr víti. Ellefu mínútum síðar var aftur jafnað og rúmu korteri fyrir leikslok skoruðu gestirnir sigurmarkið. Brynjar Skúlason, þjálfari KFA, fékk rautt spjald í uppbótartíma.

Einherji er eina liðið með fullt hús stiga í E riðli fjórðu deildar eftir 0-7 sigur á Mána. Stefan Balev skoraði þrennu og þeir Carlos Javier, Alejandro Barce og José Cascales sitt markið hver en eitt var sjálfsmark.

Öllu færri mörk voru skoruð á Norðfirði þar sem BN og Samherjar gerðu markalaust jafntefli. Spyrnir tapaði 2-0 mót Hömrunum fyrir norðan.

Í Lengjudeild kvenna vann Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir 2-1 sigur á Fylki. Ainhoa Plaxa skoraði bæði mörkin. Það fyrra á 20. mínútu en gestirnir jöfnuðu fyrir leikhlé. Sigurmarkið kom síðan sjö mínútum fyrir leikslokn.

Tveir leikir verða í fjórðu deildinni í vikunni. Spyrnir tekur á móti BN á morgun og Samherjar á móti Einherja á fimmtudag. Þann dag mætast einnig Höttur/Huginn og KFA í annarri deildinni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar