Orkumálinn 2024

Knattspyrna: Fyrstu töpuðu stig Einherja í sumar

Einherji tapaði sínum fyrstu stigum í sumar þegar liðið gerði jafntefli við Hamrana á Akureyri í síðustu umferð fjórðu deildar karla í knattspyrnu. Mikið var um jafntefli hjá austfirsku liðunum í síðustu viku.

Einherji og Hamrarnir spiluðu á miðvikudag nyrðra. Heiðar Aðalbjörnsson kom Vopnafjarðarliðinu yfir strax á fjórðu mínútu en gestirnir jöfnuðu hálftíma síðar. Aftur kom Alejandro Barce Einherja yfir á 58. mínútu en Carlos Javier varð fyrir því óláni að jafna með sjálfsmarki tveimur mínútum fyrir leikslok.

Fyrir leikinn hafði Einherji unnið fyrstu sex leiki sína. Liðið heldur áfram þriggja stiga forskoti á Hamrana, sem hafa tapað einum leik.

Spyrnir hefði getað saxað á forskot þeirra en gerði 1-1 jafntefli við Samherja á Fellavelli á föstudagskvöld. Viktor Ingi Sigurðarson skoraði mark Spyrnis á 38. mínútu en gestirnir jöfnuðu fimm mínútum síðar.

Hornafjarðarliðið Máni náði í sitt fyrsta stig í sumar þegar það gerði 3-3 jafntefli við Boltafélag Norðfjarðar á heimavelli á miðvikudag. Norðfirðingar voru alltaf á undan til að skora. Patrekur Darri Ólason kom þeim yfir strax á fimmtu mínútu en heimamenn jöfnuðu á 18. mínútu. Viktor Ívan Vilbergsson kom BN aftur yfir á 29. mínútu og þannig var í hálfleik. Máni jafnaði á ný á 54. mínútu en Sævar Steinn Friðriksson kom BN yfir á 58. mínútu. Tíu mínútum síðar jafnaði Máni í þriðja sinn og þar við sat.

Petar snýr aftur

Í annarri deild karla gerði Höttur/Huginn 1-1 jafntefli við Völsung á heimavelli á föstudagskvöld. Björgvin Stefán Pétursson kom Hetti/Huginn yfir eftir tæpt kortér en jöfnunarmarkið kom úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Petar Mudresa kom inn á sem varamaður á 84. mínútu. Þetta er fyrsti leikur hans eftir hjartaáfall sem hann fékk í lok síðustu leiktíðar.

KFA tapaði 3-1 fyrir Þrótti í Reykjavík. Felix Hammond kom KFA yfir á 17. mínútu en Þróttarar jöfnuðu tíu mínútum síðar og komust yfir snemma í seinni hálfleik. Izaro Abella, sem lék með Leikni Fáskrúðsfirði síðustu þrjú sumur, skoraði þriðja markið undir lok leiksins.

KFA og Höttur/Huginn eru jöfn í 8. – 9. sæti með sex stig.

Í Lengjudeild kvenna gerði Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir jafntefli við Víking í Reykjavík í gær. Víkingsstelpur komust yfir strax á 9. mínútu en Linli Tu jafnaði á 17. mínútu. Meira var ekki skorað í leiknum. Linli er eftir helgina markahæst í deildinni með 8 mörk. Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir er í 5. sæti með 15 stig, einu minna en mótherjar helgarinnar. 

Mynd: Umf. Einherji.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.