Knattspyrna: Línur ljósar í fjórðu deildinni

Röð liðanna í E-riðli fjórðu deildar karla og þar með hvaða lið endar í hvaða úrslitakeppni réðist um helgina. Höttur/Huginn vann mikilvægan sigur í fallbaráttu annarrar deildar.

Í nær allt sumar hefur verið ljóst að Einherji væri með langbesta lið deildarinnar. Það hefur ekki tapað leik, aðeins gert tvö jafntefli og ljóst var fyrir helgina að það væri komið beint í úrslitakeppni deildarinnar en ein umferð er enn eftir af riðlakeppninni.

Um helgina tók liðið á móti Mána úr Hornafirði en vart er hægt að segja að móttökurnar hafi verið höfðinglegar, Einherji vann 10-0 sem mörkum sem skiptust jafnt milli hálfleikja. Alejandro Barca, Maxim Iurcu og Stefan Balev skoruðu tvö mörk hver en að auki skoruðu þeir Miguel Angel, Serghei Diulgher, Helgi Már Jónsson og Benedikt Blær Guðjónsson.

Hamrarnir hafa helst elt Einherja í sumar en þeir töpuðu á heimavelli 2-3 fyrir Spyrni á föstudagskvöld. Hamrarnir voru komnir í 2-0 um miðjan fyrri hálfleik en Bjarki Sólon Daníelsson tók sig þá til og jafnaði með mörkum á 26. og 38. mínútu. Steinþór Hrímnir Aðalsteinsson skoraði síðan sigurmarkið á 52. mínútu.

Sigurinn var mikilvægur fyrir Spyrni sem þar með tryggði sér sæti í nýrri 5. deild næsta sumar. Hamrarnir eru hins vegar á leið í umspil um sæti í úrslitakeppni deildarinnar. Besta liðið úr öðru sæti fer beint í úrslitakeppnina en hin leika sín á milli um tvö sæti í úrslitakeppninni. Tvö af átta liðum úrslitakeppnina, þangað sem Einherji er þegar kominn, komast upp í þriðju deild. Þá eru eftir átta lið sem ásamt falliðunum tveimur úr núverandi þriðju deild mynda nýju fjórðu deildina.

Liðin úr þriðja og fjórða sæti núverandi fjórðu deildar mynda nýja fimmtu deild en reglan er ekki alveg algild. Riðlarnir eru sem segir fimm en þrír með átta liðum en tveir með sex. Liðin í 4. og 5. sæti minni riðlanna þurfa að spila úrslitakeppni. Annar riðillinn er E-riðillinn.

Samherjar áttu möguleika á að tryggja sér sæti beint þar til Spyrnir vann á föstudag. Þeir unnu BN 0-2 um helgina en bæði þessi lið fara í umspilið. Samherjar mæta þar Álafossi meðan BN spilar við Knattspyrnufélag Rangæinga. Önnur lið úr deildinni, þar með talið Máni, eiga rétt í væntanlegri utandeild KSÍ.

Fjarlægðust fallsvæðið

Höttur/Huginn vann mikilvægan sigur í fallbaráttau annarrar deildar karla á laugardag þegar liðið vann Reyni Sandgerði 5-0 á Vilhjálmsvelli. Stefán Ómar Magnússon og Matheus Bettio skoruðu sitt markið hvor í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik bættu þeir Rafael, Eiður Orri Ragnarsson og Hjörvar Sigurgeirsson við mörkum.

KFA lék á sama tíma gegn toppliði Njarðvíkur og tapaði 3-1. Njarðvíkingar voru 2-0 yfir í hálfleik en einn þeirra var rekinn út af eftir tíu mínútur í seinni hálfleik. Þeir bættu þó við marki áður en Marteinn Már Sverrisson minnkaði muninn á 76. mínútu.

Höttur/Huginn og KFA eru bæði með 18 stig í sætum 7. og 8. þegar þegar sex umferðir eru eftir af deildinni, átta stigum frá fallsæti. Þau vilja samt ná í fleiri stig en lið hafa fallið úr deildinni með allt að 22 stig á síðustu árum. Því verður mikið undir þegar liðin mætast í Fjarðabyggðarhöllinni á miðvikudag.

Fjarðabyggð/Hetti/Leikni mistókst að viðhalda pressunni á efstu lið Lengjudeildar kvenna þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Fylki á útivelli um helgina. Liðið er í fimmta sæti með 25 stig.

Einherji vann sinn annan sinn leik í röð í annarri deild kvenna þegar liðið vann Sindra á Hornafirði, 0-1, á laugardag. Yoana Peralta skoraði á 41. mínútu. Með sigrinum er Einherji kominn í 12 stig og 8. sæti.

Flest liðanna eiga einn leik eftir, sum tvo en önnur eru búin. Staða Einherja er sú að með sigri á ÍR á heimavelli í lokaleik getur liðið komust upp um tvö sæti og þar með í efri helming deildarinnar, gegn því að Álftanes tapi sínum lokaleik gegn ÍH. Rétt er þó að hafa að ÍR er nokkru ofar í deildinni en Einherji meðan ÍH hefur aðeins unnið einn leik í sumar, gegn KÁ sem hefur tapað öllum sínum leikjum stórt. Liðin úr hvorum helmingi deildarinnar spila síðan sín á milli um endanlega niðurröðun.

Mynd: UMF Einherji


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.